Innlent

Tvöfalt meiri sala á reiðhjólum en á sama tíma í fyrra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessi mynd er tekin síðasta sumar en miðað við sölu á reiðhjólum undanfarið má gera ráð fyrir að hjólafólki fjölgi núna í vor og sumar.
Þessi mynd er tekin síðasta sumar en miðað við sölu á reiðhjólum undanfarið má gera ráð fyrir að hjólafólki fjölgi núna í vor og sumar. Vísir/Vilhelm

Jón Þór Skaftason, sölustjóri hjá Erninum, segir að tvöfalt meiri sala sé á reiðhjólum nú en á sama tíma í fyrra. Hann telur að kórónuveirufaraldurinn skýri þessa auknu sölu.

„Fólk hefur lítið annað að gera en að hreyfa sig úti, allar sundlaugar lokaðar og líkamsræktarstöðvar þannig að það er fátt annað að gera en að fara út að hlaupa en að hjóla,“ segir Jón Þór en rætt var við hann í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Hann segir að stærsti einstaki flokkurinn sé enn þá fjallahjól þótt Íslendingar séu kannski ekki mikið að hjóla á fjöllum.

„Það er svolítið fast í okkur Íslendingum að hjóla á fjallahjóli,“ segir hann.

Jón Þór segir að vinsældir racer-hjóla hafi dalað frá því sem áður var.

„Nýjasta „trendið“ hjá þeim sem hjóla mikið er þá tveggja dempara fjallahjól,“ segir hann en með því er hægt að komast yfir alls kyns torfærur.

Vinsældir rafhjóla fara hins vegar vaxandi en slík hjól njóta vinsælda í öllum aldurshópum. Í fyrra hafi verið þreföldun í sölu rafhjóla á milli ára og nú í ár sé tvöfalt meiri sala en í fyrra.

Þá segist hann sjaldan hafa séð lager verslunarinnar jafntóman og nú en verið sé að reyna að fá fleiri hjól til landsins til að mæta aukinni eftirspurn.

Viðtalið við Jón Þór má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.