Erlent

Eiginmaður Anne-Elisabeth handtekinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen.
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen. Vísir/AP

Tom Hagen, eiginmaður Anne Elisabeth Hagen sem hvarf af heimili sínu í október 2018, var handtekinn við heimili sitt í Lørenskógi, rétt utan við Ósló, á leið til vinnu í morgun. Norska dagblaðið VG greinir frá þessu en lögregla hefur ekki viljað upplýsa neitt um handtökuna að svo stöddu.

Í frétt VG segir að eftir handtökuna hafi lögreglumenn farið inn á heimili Hagen-hjónanna og skrifstofu Toms, sem staðsett er í bænum Rasta, steinsnar frá heimilinu. Lögregla hefur boðað til blaðamannafundar klukkan hálf ellefu að norskum tíma vegna málsins, eða klukkan hálf níu að íslenskum. Hér má nálgast beina útsendingu VG af fundinum.

Sjá einnig: „Tom, ertu tilbúinn að semja?“

Fá sakamál í Noregi hafa vakið jafnmikla athygli síðustu ár og hvarf Anne-Elisabeth. Ekkert hefur spurst til hennar síðan 31. október 2018 er hún hvarf af heimili sínu og Toms, sem er einn ríkasti maður Noregs, í Lørenskógi. Lögregla hélt þétt að sér spilunum og fengu fjölmiðlar ekki veður af hvarfi hennar fyrr en í janúar í fyrra. 

Málið var fyrst rannsakað sem mannrán en meintir mannræningjar skildu eftir bréf á vettvangi þar sem þeir útlistuðu kröfur sínar; milljónir norskra króna í órekjanlegri rafmynt. 

Lögregla hvarf frá þeirri kenningu í fyrrasumar og gaf það út að málið væri nú rannsakað sem morð. Anne-Elisabeth hefði að öllum líkindum verið myrt og lausnargjaldskrafan væri aðeins sett fram í þeim tilgangi að villa um fyrir lögreglu.

Í frétt VG segir að Tom Hagen hafi ætíð verið samvinnuþýður lögreglu, látið sig rannsóknina mjög varða og sent marga tölvupósta til rannsakenda þar sem hann bauð aðstoð sína og hugmyndir að lausnum. Samkvæmt upplýsingum VG hefur Tom haldið því fram að innlendir glæpamenn, sem vilji koma höggi á hann persónulega, beri ábyrgð á hvarfi Anne-Elisabeth.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Lögregla leitar svara hjá skókaupendum

Lögregla í Noregi beinir nú sjónum sínum að sporum sem fundust á heimili Anne-Elisabeth Hagen, einnar ríkustu konu Noregs, sem var rænt af heimili sínu í Lørenskógi í lok október í fyrra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×