Íslenski boltinn

Dró upp hníf þegar KA bauð honum ekki samning: „Hef líklega aldrei ekið eins hratt“

Sindri Sverrisson skrifar
KA-menn léku í 1. deild þegar þeir íhuguðu að fá til sín leikmanninn ítalska en hafa leikið í úrvalsdeild síðustu ár.
KA-menn léku í 1. deild þegar þeir íhuguðu að fá til sín leikmanninn ítalska en hafa leikið í úrvalsdeild síðustu ár. VÍSIR/BÁRA

Ítalskur knattspyrnumaður sem kom til reynslu hjá KA á sínum tíma tók því vægast sagt illa þegar félagið ákvað að bjóða honum ekki samning.

Gunnar Níelsson, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar KA, rifjaði upp samskipti sín við Ítalann á Fótbolta.net. Forsaga málsins er sú að KA var í leit að framherja sumarið 2012, þegar liðið lék í 1. deild, og fékk leikmanninn til reynslu eftir að hann hafði verið til reynslu hjá ÍBV. Samkvæmt lýsingum Gunnars var strax augljóst að Ítalinn væri ekki burðugur markaskorari. Því var ákveðið að senda hann heim en sá ítalski tók því afar illa og jós fúkyrðum yfir Gunnar.

Gunnar ók sjálfur með Ítalann á flugvöllinn og stóð ekki á sama þegar farþeginn dró upp hníf: „Þegar við ókum framhjá kirkjugarði bæjarins fór hann með höndina inn á jakkann sem hann var í og dró upp hníf! Spurði mig hvort hann ætti ekki bara að drepa mig hér og nú. Ég hef líklega aldrei ekið eins hratt eða talað eins mikið og hratt en sem betur fer fyrir mig tókst að róa mannhelvítið aðeins og ég kom honum á flugvöll 12 mínútum fyrir brottför. Það var lítið um kveðjur þegar ég henti töskunni í hann,“ sagði Gunnar við Magnús Má Einarsson hjá Fótbolta.net.

Gunnar Níelsson, eða Gunni Nella, hefur starfað um árabil fyrir KA og var um tíma formaður knattspyrnudeildar.FACEBOOK/@KAAKUREYRI



Fleiri fréttir

Sjá meira


×