Enski boltinn

Van Gaal: Mjög ánægður með að mæta Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United.
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United. Vísir/Getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, fagnaði því að fá að mæta Arsenal á Old Trafford í stórleik átta liða úrslita ensku bikarkeppninnar.

Manchester United vann 3-1 endurkomusigur á C-deildarliði Preston í gærkvöldi en fyrir leikinn var dregið í átta liða úrslitin. United-liðið vissi því að Arsenal biði þeirra.

United lenti 1-0 undir í leiknum en mörk frá þeim Ander Herrera, Marouane Fellaini og Wayne Rooney tryggði liðinu 3-1 sigur og sæti í næstu umferð.

Manchester United og Arsenal mætast helgina 7. til 8. mars næstkomandi og er þetta fyrsti leikur Manchester United í bikarnum á tímabilinu þar sem liðið mætir úrvalsdeildarliði.

„Við fengum heimaleik sem er mjög mikilvægt í enska bikarnum. Ég er mjög ánægður með að mæta Arsenal og að fá loksins heimaleik," sagði Louis van Gaal eftir leikinn.

„Það eru allir leikir erfiðir í bikarnum því öll lið munu gefa allt sitt í þessa leiki," sagði Van Gaal.

„Það sást líka í þessari umferð að mörg lið sem voru ofar í töflunni eða í deild fyrir ofan voru að tapa. Það eru ekki endilega meiri líkur á sigri þótt að þú mætir liði úr deild fyrir neðan," sagði Van Gaal.

Manchester United og Arsenal hafa bæði unnið enska bikarinn ellefu sinnum en Arsenal er ríkjandi bikarmeistari. United vann síðasta bikarleik félaganna sem var í átta liða úrslitum keppninnar árið 2011.


Tengdar fréttir

Van Gaal um Rooney: Vinalegur og kvartar aldrei

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að félagið verði að kaupa skapandi miðjumann í sumar og það sé því alls ekki ætlun hans að gera Wayne Rooney að miðjumanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×