Enski boltinn

Grayson, stjóri Preston: Þetta var ekki dýfa hjá Rooney | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fiskaði umdeilt víti í bikarleiknum á móti Preston í gærkvöldi en með því að skora sjálfur úr vítaspyrnunni þá innsiglaði hann 3-1 sigur Manchester United og sæti í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Það leit út fyrir að Thorsten Stuckmann, markvörður Preston, hafi komið afar lítið við Wayne Rooney ef þá hann kom eitthvað við hann. Simon Grayson, knattspyrnustjóri Preston, reyndi þó ekki að saka Rooney um leikaraskap eftir leikinn.

„Ég er ekki að segja að þetta hafi ekki verið vítaspyrna. Ég er að segja að það var engin snerting," sagði Simon Grayson við BBC eftir leikinn.

„Þetta var ekki dýfa. Rooney reynir bara að koma sér undan," bætti Grayson við.

Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englendinga, var einnig á leiknum og hann var sammála Grayson um að þetta hafi ekki verið dýfa.

„Ég held að enginn okkar hefði ekki dæmt víti á þetta ef við hefðum ekki getað séð þetta aftur í endursýningu. Markvörðurinn kom með báðar fætur í hann og Rooney lék boltanum framhjá honum," sagði Roy Hodgson.

Margir hafa sakað Rooney um leikaraskap enda er erfitt að sjá snertinguna sem átti að hafa fellt enska landsliðsframherjann. Hér fyrir ofan er hægt að sjá Wayne Rooney fiska vítaspyrnuna og dæmi nú hver fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×