Enski boltinn

Solskjær vonar að kærusturnar hjálpi til

Sindri Sverrisson skrifar
Ole Gunnar Solskjær fylgist vel með ástandi sinna leikmanna en alls kostar óvíst er hvenær hann stýrir þeim næst á Old Trafford.
Ole Gunnar Solskjær fylgist vel með ástandi sinna leikmanna en alls kostar óvíst er hvenær hann stýrir þeim næst á Old Trafford. VÍSIR/GETTY

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, lýsir því í samtali við heimasíðu félagsins hvernig gangi að þjálfa liðið á tímum kórónuveirunnar.

Engar liðsæfingar hafa verið hjá United frekar en öðrum liðum í Englandi undanfarið en tæknin hjálpar Solskjær að fylgjast vel með ástandi sinna leikmanna.

„Leikmennirnir eru hver og einn með sitt prógramm og þeir eru með sitt eigið mataræði, auðvitað, og það má nýta þennan tíma í ákveðna hluti, eitthvað sem tengist þeim sérstaklega og þeirra sérhæfingu,“ sagði Solskjær sem sjálfur æfir heima hjá sér og kennir krökkunum sínum:

„Ég er búinn að vera í garðinum, með krökkunum, að vinna í að klára færin og framherjarnir ættu að vera að vinna í því að klára færin og taka réttu hreyfingarnar. Flestir leikmannanna eru með góðar aðstæður og almennilega garða líka svo að, vonandi, munu eiginkonur þeirra og kærustur geta hjálpað þeim með því að senda boltann og gefa nokkrar fyrirgjafir,“ sagði Solskjær léttur.

Manchester United var í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og komið langleiðina í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar, með 5-0 sigri á LASK í fyrri leik liðanna, þegar hlé var gert á nánast öllum fótbolta í Evrópu vegna kórónuveirufaraldursins. Enn er óljóst hvort og þá hvernig tímabilið verður klárað.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.