Erlent

Forseti Palestínu boðar til kosninga

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu tilkynnti í dag að stjórn hans myndi boða til aukakosninga vegna yfirtöku Hamassamtakanna á Gaza svæðinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hittir Abbas í Ramallah á Vesturbakkanum á morgun.

Abbas sagði í tilkynningu sinni að hann myndi ekki bíða eftir samþykki Hamas sem nú ræður ríkjum á Gaza svæðinu. Eftir að Hamas tók þar völdin hefur svæðum Palestínumanna í raun verið stjórnað af tveimur fylkingum, Fatah á Vesturbakkanum og Hamas á Gaza svæðinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, mun á morgun eiga fund með forsætisráðherra Palestínu, Salam Fayyad, og Mahmoud Abbas. Hún sagði í viðtali við fréttastofuna í gær að nauðsynlegt væri að styðja við bakið á Abbas og stjórn hans svo hægt væri að færa fólkinu almenna þjónustu.

Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins Ísland Palestína, sagði í hádegisviðtalinu á Stöð tvö í dag að íslenskt stjórnvöld hefðu hlutverki að gegna í Mið-Austurlöndum. Þá sagði hann að nauðsynlegt væri fyrir íslensk stjórnvöld að styðja við lýðræðisferlið í Palestínu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×