Fótbolti

Sálfræðilegar mælingar samhliða líkamlegum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frá mælingu KSÍ og HR í Kórnum í Kópavogi.
Frá mælingu KSÍ og HR í Kórnum í Kópavogi. Vísir/KSÍ

Knattspyrnusamband Íslands, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, hefur boðið öllum leikmönnum Íslands sem eru á eldra ári í þriðja flokki upp á mælingar á líkamlegu atgervi sem og sálfræðilegar mælingar. 

„Í samvinnu við HR hefur KSÍ boðið upp á mælingar á líkamlegu atgervi hjá öllum leikmönnum á landinu sem eru á eldra ári í 3. flokki. Lára Hafliðadóttir og Katrín Ýr Friðgeirsdóttir, nemendur í HR vinna þetta viðamikla og áhugaverða verkefni,“ segir á vef KSÍ um mælingarnar.

Verkefnið fór fram í janúar og febrúar á þessu ári. Þá verður það endurtekið á næstu ári sem og yngri landslið Íslands gangast undir sömu mælingar tvisvar á ári.

Ástæður fyrir mælingar á líkamlegu atgervi

  • Yngri landslið okkar eru oft að spila á móti liðum sem eru sterkari líkamlega og með fljótari leikmenn.
  • Hjálpar félögunum að vinna markvisst með líkamsþjálfun knattspyrnuiðkenda.
  • Með niðurstöðum er hægt að hjálpa félögunum að vinna markvisst í líkamlega þættinum.
  • Býr til gagnagrunn um það hvaða eiginleikum okkar bestu leikmenn búa yfir.
  • Getum borið saman lið, árganga, einstaklinga og í framhaldinu boðið upp á einstaklingsbundnar áætlanir.
  • Getum aðlagað þjálfaramenntun okkar - Hvar erum við á eftir í líkamlega þættinum?

KSÍ stefnir á að eiga einstakan gagnagrunn með upplýsingum um íslenska leikmenn eftir nokkur ár. Ljóst er að ekkert knattspyrnusamband í heiminum mun eiga slíkan gagnagrunn en verkefnið er einsdæmi í heiminum.

Samhliða líkamlegum mælingum fóru einnig fram sálfræðilegar mælingar á sömu leikmönnum. Grímur Gunnarsson, nemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík, framkvæmdi þær mælingar undir handleiðslu íþróttasálfræðinganna Hafrúnar Kristjánsdóttur og Halls Hallssonar.

„Ísland er hinn fullkomni rannsóknarvettvangur,“ segir Grímur um rannsóknina. Hann mun jafnframt aðstoða KSÍ í sumar við að bæta afreksstarf yngri landsliðanna hvað varðar sálfræðihlutann.

Alls tóku Grímur, Lára og Katrín Ýr mánuð í rannsóknirnar. Fóru þær fram í Kórnum, Grindavík, Akranesi, Vestmannaeyjum, Hveragerði, Akureyri og Reyðarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×