Erlent

Atvinnuleysi ekki meira síðan í kreppunni miklu

Andri Eysteinsson skrifar
Grímuklædd kona gengur fram hjá einni af þeim fjölmörgu verslunum í Dallas sem hefur verið lokað vegna faraldursins.
Grímuklædd kona gengur fram hjá einni af þeim fjölmörgu verslunum í Dallas sem hefur verið lokað vegna faraldursins. AP/LM Otero

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum hefur aukist til muna vegna faraldurs kórónuveirunnar. Atvinnuleysi hefur ekki mælst jafnmikið í landinu frá kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. AP greinir frá því að nú sé einn af hverjum sex Bandaríkjamönnum án atvinnu.

Yfir 4,4 milljónir manna sóttu um atvinnuleysisbætur í síðustu viku en alls hafa 26 milljónir sótt um bætur á síðustu fimm vikum. Sá fjöldi er meiri en í sex stærstu borgum Bandaríkjanna samanlagt.

Atvinnuleysi var mikið um tíu ára skeið eftir hrun í Bandaríkjunum árið 1929 og varð það mest 25%. Yfirvöld vonast eftir því að ástandið núna muni vara skemur en búast þó enn við að bætast muni í þann fjölda sem missa vinnuna á næstu vikum.

Vegna samkomu- og útgöngubanna víða um Bandaríkin hafa verksmiðjur og verslanir neyðst til að loka og segja upp starfsfólki sínu. Víða eru borgarar orðnir þreyttir á ástandinu og hefur verið efnt til mótmæla á ýmsum stöðum. Dæmi eru um að ríkisstjórar hafi, þvert á ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda, slakað á takmörkunum sem settar hafa verið.

Tæplega 850 þúsund manns hafa greinst með veiruna í Bandaríkjunum og eru það um 600 þúsund fleiri tilfelli heldur en á Spáni, þar sem næst flest tilfelli hafa greinst. Alls hafa 46.972 látist af völdum veirunnar og hefur stórborgin New York orðið verst úti en þar hafa 15.074 látist og 263.754 greinst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×