Enski boltinn

Neill: Eggert seldi mér hugsjón sína

Eggert Magnússon ætlar sér að gera West Ham að alþjóðlegu stórveldi.
Eggert Magnússon ætlar sér að gera West Ham að alþjóðlegu stórveldi.

Lucas Neill, hinn ástralski varnarmaður West Ham, segir að ef hugsjón og áætlanir Eggert Magnússonar með West Ham gangi eftir muni ekki líða á löngu þar til stórliðin fjögur í Englandi munu fá einn keppinaut til viðbótar – West Ham.

Í enn einu viðtalinu þar sem Neill reynir að réttlæta ákvörðun sína um að fara til West Ham fremur en Liverpool segir Neill frá þessum hugsjónum.

“Ég veit hverjar hugmyndir Eggerts með félagið eru, en flestir þeirra sem eru að gagnrýna mig fyrir að hafa farið til West Ham vita það ekki. Þeir hafa ekkert heyrt um ævintýrið sem er í vændum. Þeir hafa þar af leiðandi ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala um,” segir Neill í samtali við Daily Telegraph.

“Ég vona innilega að allir í Englandi munu fá að sjá sem fyrst hverjar áætlanir hans með félagið eru. Þær eru ótrúlegar,” segir Neill og þar við um Eggert. “Ef þær verða að veruleika þá yrði það líka mjög gott fyrir fótboltann í landinu. Það yrðu ekki lengur aðeins fjögur stórlið í deildinni.”

Neill kveðst einnig hafa verið sannfærður um að hafa ekki átt fast sæti í liði Liverpool, og það hefði átt stóran þátt í ákvörðun hans. “Ég er 29 ára gamall og langar að spila í hverjum einasta leik. Hjá Liverpool hefði ég orðið einn af hópnum, spilandi annan eða þriðja hvern leik. Mig langaði það ekki. Síðan kom Eggert til sögunnar, ég ræddi við hann og á þeim tíma náði hann að selja mér hugsjón sína með félagið. Eftir það var ekki aftur snúið.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×