Fótbolti

Víðir útskýrði mistökin sín: Hið besta fólk sem ég þekki fékk mikinn skít yfir sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, viðurkennir að hann hafi verið kannski svolítið neikvæður á síðustu fundum.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, viðurkennir að hann hafi verið kannski svolítið neikvæður á síðustu fundum. vísir/vilhelm

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, er búinn að viðurkenna mistök í gær þegar hann sakaði íþróttafélög um að vera með skipulagðar æfingar í samkomubanni. Hann útskýrði þetta frekar „Í Bítinu“ á Stöð 2 Sport, Bylgjunni og Vísi í morgun.

Heimir Karlsson og Gunnlaugur Helgason fengu Víðir Reynisson í heimsókn til sín en fram undan er enn einn krefjandi vika hjá honum.

Víðir byrjaði á því að útskýra misskilning sinn frá því í gærdag. Hann fékk þá myndir þar sem mátti sjá fjölda krakka vera í fótbolta á gervigrasvelli síns félags.

„Við fengum tilkynningar eins og við fáum á hverjum einasta degi í gegn Facebook síðuna okkar. Við fengum með því myndir sem maður greip eiginlega á hlaupum fyrir blaðamannafundinn í gær. Ég verð að viðurkenna, eins og ég sagði í gærkvöldi, að það fauk aðeins í mig að horfa á þetta,“ sagði Víðir Reynisson.

„Við höfum verið í góðum samskiptum við íþróttafélögin og ég bara skildi það ekki hvernig þetta ætti sér stað og það væri með þessar æfingar. Við fengum myndir frá æfingasvæðunum hjá fjórum félögum,“ sagði Víðir og hann skammaði félögin á blaðamannfundinum.

Frá fótboltaæfingu.Vísir/Hanna

„Ég segi þetta á blaðamannafundinum en síðan förum við að skoða þetta betur eftir fundinn og ég fer líka að fá símhringingar frá félögunum sem eru miður sín og að sjá þessar myndir sjálf,“ sagði Víðir.

„Það kemur bara í ljós þegar við skoðum þetta að þetta eru þessir gervigrasvellir sem eru opnir. Þeir eru bara ólæstir eins og þeir hafa alltaf verið. Þarna eru bara krakkar sem vilja leika sér og líka mikið af krökkum sem eru metnaðarfull í sinni íþrótt og vilja æfa,“ sagði Víðir.

„Ég var í samskiptum við fólk í gær sem fékk miklar ákúrur og besta fólk sem ég þekki sem fékk mikinn skít yfir sig á samfélagsmiðlum í gær. Það kemur svo í ljós að þetta er ekkert skipulagt og félögin eru að standa sig og þau vilja standa sig,“ sagði Víðir.

Hvernig koma menn í veg fyrir svona ástand?

„Ég held að við gerum það ekki nema með því að halda áfram að tala við krakkana og íþróttafélögin ætla koma í það með okkur að senda skilaboð til sinna iðkenda um að passa þetta og vera ekki að hópast of mörg saman,“ sagði Víðir.

Víður Reynisson leikur sér með boltann á æfingu hjá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta í Gelendzik á HM í Rússlandi í júní 2018.Vísir/Vilhelm

„Fótboltavellir eru stórir og það er ekkert mál að koma sér fyrir tveir, þrír, fjórir saman og gera æfingar án þess að vera í kös. Eins og var í Fagralundi í gær þar sem var verið að ásaka Breiðablik um að vera með 50 krakka á æfingu þá var þetta ekki tengt Breiðablik nema því að krakkarnir mæta stolt í sínum íþróttafatnaði merktum sínu félagi,“ sagði Víðir.

„Svona verða sögurnar til og við verðum, eða ég, því það eru ekkert við í þessu. Ég gerði þessi mistök að taka þetta upp. Við lærum af þessu. Við þurfum að fá krakkana til að skilja þetta betur,“ sagði Víðir en það má heyra allt viðtalið við hann hér fyrir neðan.

Klippa: Bítið - Víðir Reynisson

Tengdar fréttir

Víðir biðst afsökunar: „Í dag gerði ég mistök“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, greinir frá því á Twitter-síðu sinni í kvöld að hann hafi gert mistök á blaðamannafundi dagsins þar sem hann greindi frá því að fjögur íþróttafélög hafi stundað æfingar í æfingabanninu sem nú stendur yfir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.