Erlent

Fyrsta dauðsfallið í Sýrlandi staðfest

Sylvía Hall skrifar
Hvítu hjálmarnir hvetja fólk til þess að halda sig heima.
Hvítu hjálmarnir hvetja fólk til þess að halda sig heima. Vísir/Getty

Heilbrigðisráðuneyti Sýrlands staðfesti í dag að kona hefði dáið af völdum kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Þetta kemur fram á vef Reuters.

Konan var flutt á spítala til aðhlynningar og kom þá í ljós að hún var smituð af kórónuveirunni. Staðfest smit í landinu eru nú níu talsins en heilbrigðisstarfsmenn telja þau vera mun fleiri.

Ráðamenn í landinu neita því að fara leynt með fjölda tilfella. Útgöngubann hefur verið sett á til þess að hefta útbreiðslu veirunnar en heilbrigðisstarfsmenn segja landið vera í mikilli hættu ef útbreiðslan verður mikil. Heilbrigðiskerfi landsins sé í molum eftir níu ára stríðsástand og mikill skortur sé á búnaði til þess að greina veiruna.

Samtökin Hvítu hjálmarnir hafa lýst yfir áhyggjum af því að kórónuveiran berist í fjölmennar flóttamannabúðir í landinu. Komist veiran í flóttamannabúðirnar verður einstaklega erfitt að ráða við faraldurinn að sögn samtakanna.

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum búa 900.000 í mjög þéttbýlum búðum á svæðinu. Hreinlætisvörur eru nær hvergi sjáanlegar og ómögulegt er að setja fólk í sóttkví eða einangrun.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×