Erlent

Fyrsta dauðsfallið í Sýrlandi staðfest

Sylvía Hall skrifar
Hvítu hjálmarnir hvetja fólk til þess að halda sig heima.
Hvítu hjálmarnir hvetja fólk til þess að halda sig heima. Vísir/Getty

Heilbrigðisráðuneyti Sýrlands staðfesti í dag að kona hefði dáið af völdum kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Þetta kemur fram á vef Reuters.

Konan var flutt á spítala til aðhlynningar og kom þá í ljós að hún var smituð af kórónuveirunni. Staðfest smit í landinu eru nú níu talsins en heilbrigðisstarfsmenn telja þau vera mun fleiri.

Ráðamenn í landinu neita því að fara leynt með fjölda tilfella. Útgöngubann hefur verið sett á til þess að hefta útbreiðslu veirunnar en heilbrigðisstarfsmenn segja landið vera í mikilli hættu ef útbreiðslan verður mikil. Heilbrigðiskerfi landsins sé í molum eftir níu ára stríðsástand og mikill skortur sé á búnaði til þess að greina veiruna.

Samtökin Hvítu hjálmarnir hafa lýst yfir áhyggjum af því að kórónuveiran berist í fjölmennar flóttamannabúðir í landinu. Komist veiran í flóttamannabúðirnar verður einstaklega erfitt að ráða við faraldurinn að sögn samtakanna.

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum búa 900.000 í mjög þéttbýlum búðum á svæðinu. Hreinlætisvörur eru nær hvergi sjáanlegar og ómögulegt er að setja fólk í sóttkví eða einangrun.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.