Enski boltinn

Liverpool gæti mögulega fengið spænskt undrabarn frítt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Ferran Torres í leik með Valencia í Meistaradeildinni.
 Ferran Torres í leik með Valencia í Meistaradeildinni. Getty/Matteo Ciambelli

Ítalska blaðið Corriere dello Sport skrifar í dag um það að Liverpool sé búið að blanda sér fyrir alvöru í baráttuna um hinn tvítuga kantmann Ferran Torres.

Ferran Torres spilar með Valencia á Spáni og hefur spilað fyrir yngri landslið Spánar. Strákurinn er hægri fótar maður sem spilar aðllega á hægri vængnum í leikkerfinu 4-4-2 með tvo afturliggjandi miðjumenn en hann hefur líka verið að spila frammi.

Samkvæmt frétt ítalska blaðsins þá gæti Liverpool meira að segja fengið þetta undrabarn á frjálsri sölu en hann er verðlagður á 90 milljónir enskra punda.

Ferran Torres hefur þegar spilað yfir 60 leiki fyrir aðllið Valencia þrátt fyrir ungan aldur en hann fæddist í lok febrúar 2000.

Torres er með 4 mörk og 4 stoðsendingar í 25 leikjum í spænsku deildinni á þessu tímabili og hann var með 2 mörk og 2 stoðsendingar í 6 leikjum í Meistaradeildinni.

Barcelona hefur verið með Ferran Torres á óskalista sínum í nokkurn tíma en nú hefur Liverpool sýnt stráknum meiri áhuga.

Samningur Ferran Torres og Valencia er að renna út næsta sumar og hann hefur ekki viljað framlengja samninginn. Valencia hefur boðið honum hærri samning en án árangurs.

Það þykir líklegt að Jürgen Klopp vilji frekar taka áhættuna og bíða eftir því að samningur Ferran Torres renni út en það gæti gefið Valencia tíma til að fá eitthvað fyrir hann.

Það er því ennþá líklegra að Ferran Torres verði seldur í sumar eða haust frekar en að hann komi til Liverpool á frjálsri sölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×