Innlent

Um 2000 veirupinnar til í landinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Starfsmaður á Heilsugæslunni Höfða sést hér með einn veirupinna í annarri höndinni þegar hann tekur sýni fyrir kórónuveirunni hjá manneskju sem situr inni í bílnum.
Starfsmaður á Heilsugæslunni Höfða sést hér með einn veirupinna í annarri höndinni þegar hann tekur sýni fyrir kórónuveirunni hjá manneskju sem situr inni í bílnum. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að skortur á pinnum hér á landi til þess að taka sýni vegna kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19 sé ákveðið áhyggjuefni.

Menn séu hins vegar með allar klær úti til þess að reyna að fá fleiri pinna til landsins og þá er einnig verið að skoða hvort hægt sé að framleiða pinnana hér.

Þetta kom fram á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag. Sagði Þórólfur að til væru um 2000 veirupinnar í landinu en til að setja þá tölu í samhengi má nefna að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans tók í liðinni viku um 2000 sýni á fjórum dögum.

Vegna skorts á pinnum hefur Íslensk erfðagreining til að mynda ekki getað rannsakað mjög marga undanfarna daga og nú þarf að sögn Þórólfs að þrengja þann hóp sem hægt er að taka sýni hjá með tilliti til kórónuveirunnar.

Þannig verða aðeins tekin sýni hjá þeim sem eru veikir og reynt að sleppa því að taka sýni hjá þeim sem eru einkennalausir eða sýna lítil einkenni.

Þá hvatti Þórólfur almenning áfram til sóttvarnaaðgerða, það er að passa upp á hreinlætið, fjarlægðarmörkin og að vernda viðkvæma hópa. Einnig minnti hann á hert samkomubann sem tekur gildi á miðnætti og mikilvægi þess að fara eftir því.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.