Erlent

Bað kvið­dóminn að vera ó­hræddan við að taka „ó­vin­sæla á­kvörðun“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Weinstein mætir í dómsal í New York 3. febrúar. Hann hefur notast við göngugrind síðan réttarhöldin hófust.
Weinstein mætir í dómsal í New York 3. febrúar. Hann hefur notast við göngugrind síðan réttarhöldin hófust. Vísir/getty

Aðalverjandi kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein freistaði þess í lokaræðu sinni í dómsal í New York í dag að sá efasemdafræi í huga kviðdómenda og kasta rýrð á trúverðugleika kvennanna sem báru vitni við réttarhöldin. Þá bað hún kviðdóminn að vera ekki hræddan við að taka „óvinsæla ákvörðun“.

Réttarhöld yfir Weinstein hófust í byrjun janúar. Tvær konur saka hann um nauðgun en hinar fjórar um annars konar kynferðisofbeldi. Weinstein neitar sök í fimm ákæruliðum.

Sjá einnig: „Þetta þurfa allar leikkonur að gera til að slá í gegn“

Donna Rotunno, aðalverjandi Weinstein, lagði áherslu á að konurnar væru fullorðnar. Ákæruvaldið hefði með málflutningi sínum við réttarhöldin búið til nokkurs konar „hliðarveruleika“, þar sem konur bæru ekki ábyrgð á samkvæmunum sem þær sæktu, karlmönnunum sem þær döðruðu við – og þaðan af síður eigin ákvörðunum.

Donna Rotunno, aðalverjandi Harvey Weinstein.Vísir/EPA

Hún kvaðst meðvituð um að hún væri að biðja kviðdóminn um að taka „óvinsæla ákvörðun“. Kviðdómurinn væri jafnframt síðasta vígið gegn „ofstækisfullum“ fjölmiðlum og ákæruvaldi, sem hefði teiknað upp mynd af Weinstein sem „svo óaðlaðandi og feitum að engin kona myndi nokkurn tímann sofa hjá honum sjálfviljug“.

„Ykkur þarf ekki að líka við Weinstein,“ sagði Rotunno er hún ávarpaði kviðdóminn. „Þetta er ekki vinsældakeppni. […] Það er óvinsæla fólkið sem þarfnast kviðdómanna mest í þessu landi. Óvinsæla manneskjan þarfnast ykkar sárast.“

Flestar konurnar sem borið hafa vitni gegn Weinstein eiga það sameiginlegt að hafa verið að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndabransanum þegar hann á að hafa brotið gegn þeim. Alls hafa yfir hundrað konur sakað Weinstein um kynferðisofbeldi eða kynferðislega áreitni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.