Erlent

Segir Weinstein hafa boðið sér hlutverk í skiptum fyrir kynlíf: „Svona virkar bransinn“

Sylvía Hall skrifar
Dawn Dunning bar vitni í dag. Til vinstri má sjá Harvey Weinstein mæta í réttarsal.
Dawn Dunning bar vitni í dag. Til vinstri má sjá Harvey Weinstein mæta í réttarsal. Vísir/Getty

Leikkonan Dawn Dunning bar vitni gegn Harvey Weinstein í dag og lýsti þar meintu kynferðisofbeldi kvikmyndaframleiðandans. Atvikið átti sér stað árið 2004 þegar leikkonan starfaði sem þjónn og var að taka sín fyrstu skref innan kvikmyndaheimsins.

Hún segist hafa hitt Weinstein fyrst á næturklúbbi í New York þar sem hún starfaði. Þar hafi hann boðist til þess að hjálpa henni að koma sér á framfæri sem leikkona og boðaði hana á fund á hótelherbergi sínu. Það hafi aldrei hvarflað að henni að sá fundur færi fram á öðrum forsendum en viðskiptalegum.

Sjá einnig: Bar vitni gegn Weinstein og lýsti meintri nauðgun ítarlega

Til stóð að ræða hlutverk fyrir Dunning í kvikmynd sem framleidd yrði af framleiðslufyrirtækinu Miramax sem Weinstein stjórnaði á þeim tíma. Fimm starfsmenn fyrirtækisins voru í hótelherberginu þegar hún kom þangað inn og því fátt sem benti til þess að þarna væri um annað að ræða en viðskiptafund.

Tók hana afsíðis og braut á henni 

Hún lýsti því hvernig Weinstein bað hana um að koma í annað herbergi. Þar hafi þau setið á rúminu og spjallað saman og segir Dunning að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað. Hún hafi treyst honum og ekkert sem benti til þess að hann myndi brjóta á henni.

„Höndin hans fór undir nærfötin mín. Hann var að reyna að koma henni inn í leggöngin mín,“ sagði Dunning og brotnaði samstundis niður. Þegar saksóknari spurði hana hvort hönd hans hafi farið í leggöng hennar og svaraði hún játandi en tók þó fram að hann hafi ekki farið „alla leið“.

Hún segist hafa verið í töluverðu áfalli eftir atvikið. Weinstein hafi sagt henni að þetta væri ekki stórmál og hún ætti sjálf ekki að gera stórmál úr þessu. Þetta kæmi ekki fyrir aftur.

„Ég var að reyna að fá vinnu frá honum svo þetta var eins og starfssamband,“ sagði Dunning, sem sagðist hafa verið mjög spennt að hitta framleiðandann fram að þessu. Henni hafi þótt mjög merkilegt að fá fund með Weinstein enda vissi hún hversu valdamikill hann væri í þessum geira.

Harvey Weinstein hefur verið sakaður um kynferðisbrot gegn fjölmörgum konum. Margar þeirra voru að reyna að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndaiðnaðinum.Vísir/Getty

„Þú mátt fá þessi þrjú hlutverk ef þú ferð í trekant með mér og aðstoðarmanni mínum“

Dunning ákvað að hitta Weinstein aftur á öðru hóteli enda hafði henni verið lofað að fundurinn færi fram á veitingastað hótelsins en ekki uppi á herbergi. Þegar hún kom á staðinn kom annað á daginn og hún send í herbergi framleiðandans. Þar hafi hann tekið á móti henni í baðslopp einum fata.

„Hann var í mikilli yfirþyngd og maginn á honum lafði niður,“ sagði Dunning þegar hún var beðinn um að lýsa því hvernig Weinstein tók á móti henni.

Í herberginu hafði Weinstein raðað þremur samningum á borð sem voru hlutverk í þremur bíómyndum. Hann bauð henni hlutverkin með einu skilyrði:

„Þú mátt fá þessi þrjú hlutverk ef þú ferð í trekant með mér og aðstoðarmanni mínum,“ sagði framleiðandinn.

Dunning tók tilboði framleiðandans sem gríni. Þegar hann sagðist gefa henni hlutverkin í skiptum fyrir kynlíf fór hún að hlæja en þá reiddist Weinstein og öskraði á hana að hún kæmist aldrei langt innan kvikmyndaheimsins.

„Svona virkar bransinn. Svona komust leikkonur þangað þar sem þær eru í dag,“ á Weinstein að hafa öskrað og bætti því næst við að bæði Charlize Theron og Salma Hayek hefðu stundað samskonar „viðskipti“ fyrir hlutverk.

Vissi ekki hvort þetta væri ólöglegt

Hún segist ekki hafa vitað hvað hún ætti að gera. Hún hafi orðið hrædd og ákveðið að hlaupa út í næsta leigubíl. Stuttu seinna hafi hún fengið símtal frá aðstoðarmanni Weinstein sem tilkynnti henni að hann vildi tala við hana. Hún neitaði að ræða við hann og segist ekki hafa heyrt í honum síðan.

Hún segir atvikið hafa orðið til þess að hún gaf leiklistardrauminn upp á bátinn og sneri sér að öðrum verkefnum. Hún hafi þó sagt vinum og vandamönnum frá því sem hafði gerst en ekki hringt í lögregluna því hún vissi ekki hvort háttsemi Weinstein væri ólögleg.

„Ég hætti að leika eftir þetta. Ég hélt áfram að gera list með vinum eða litla hluti, en ég hætti að fara í áheyrnarprufur. Ég hætti að reyna eins og ég hafði reynt áður,“ sagði Dunning.


Tengdar fréttir

Bar vitni gegn Weinstein og lýsti meintri nauðgun ítarlega

Bandaríska leikkonan Annabella Sciorra, bar í dag vitni gegn Harvey Weinstein dag í réttarhöldunum yfir kvikmyndaframleiðandanum. Sýndi hún viðstöddum hvernig Weinstein á að hafa haldið henni niðri áður en hann nauðgaði henni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×