Erlent

Óttast að engisprettufaraldur valdi hungursneyð í Austur-Afríku

Kjartan Kjartansson skrifar
Kenískur bóndi glímir við engisprettusveim í janúar.
Kenískur bóndi glímir við engisprettusveim í janúar. Vísir/EPA

Sameinuðu þjóðirnar telja að nokkur lönd í Austur-Afríku gæti verið á barmi hungursneyðar nái menn ekki tökum á ógurlegum engisprettusveimi sem hefur lagst á akra og beitarland fljótlega. Tilraunir til að hafa hemil á plágunni hafa reynst árangurslausar fram að þessu.

Hundruð milljarðar engisprettna tæta nú í sig allt ætilegt í Eþíópíu, Sómalíu, Kenía, Tansaníu og Úganda. Óttast er að engispretturnar eigi eftir að fjölga sér enn frekar. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) varar við því að þær fjölgi sér svo hratt að fjöldinn gæti hafa fimmhundruðfaldast í júní.

Stofnun hefur óskað eftir því að alþjóðasamfélagið leggi til um 76 milljónir dollara, jafnvirði um 9,7 milljarða íslenskra króna, til þess að úða skordýraeitri yfir sveimina úr lofti. Það er talin árangursríkasta leiðin til að glíma við pláguna en ríkin skortir búnað og fjármuni til þess, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Verði útbreiðsla engisprettanna ekki takmörkuð þurfi alþjóðasamfélagið að öðrum kosti að leggja til umfangsmikla matvælaaðstoð í mannúðarástandi sem gæti farið úr böndunum, að sögn Dominique Burgeon, forstöðumanns neyðarmála hjá FAO.

Engisprettufaraldurinn nú er talinn sá versti í Kenía í 70 ár og sá versti í Eþíópíu og Sómalíu í aldarfjórðung. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í allri Sómalíu vegna hans. Talið er að engispretturnar hafi komið frá Jemen fyrir um þremur mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×