Erlent

Vill bann við ó­nauð­syn­legum ferðum strax í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Ursula von der Leyen tók við embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í lok síðasta árs.
Ursula von der Leyen tók við embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í lok síðasta árs. Getty

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, vill að fyrirhugað bann við ónauðsynlegum ferðum milli aðildarríkja Evrópusambandsins taki gildi strax í dag.

Bannið yrði sett á með það fyrir augum að hefta frekari útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19 og myndi það einnig loka ytri landamærum Schengen svæðisins, sem Íslendingar eru aðilar að.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi að í raun þýði bannið að Evrópu verði lokað og á ferðabannið að gilda í þrjátíu daga. Málið verður rætt á símafundi leiðtoga sem fram fer síðar í dag.

Öðrum Evrópuríkjum, sem þó eru ekki aðilar að Schengen, verður boðið að taka þátt í aðgerðunum, óski þær þess, en á meðal Evrópulanda sem ekki eru í Schengen má nefna Bretland og Írland.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi.Getty

Flest ríki heims þar sem kórónuveirunnar hefur orðið vart eru nú að herða á aðgerðum sínum til varnar veikinni og í Þýskalandi hefur Angela Merkel bannað allar trúarathafnir og sagt fólki að fresta öllum fyrirhuguðum ferðalögum.

Í Frakklandi hefur Emmanuel Macron forseti síðan sagt fólki að halda sig heima og aðeins fara út í nauðsynlegum erindagerðum. Macron sagði einnig að fyrri ráð, sem gengu út á að loka skólum, kaffihúsum og verslunum hefðu ekki dugað nægilega vel til að hefta útbreiðsluna.


Tengdar fréttir

Mögulegt ferðabann hefur mikil áhrif á Icelandair

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að skoða þurfi uppsagnir eða lækkuð starfshlutföll komi til þess að íslensk stjórnvöld ákveði að landið taki þátt í fyrirhuguðu ferðabanni til Evrópusambandsins og Schengen-ríkjanna sem ætlað er að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar COVID-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×