Fimm farþegar sem ætluðu sér til Tenerife nú í hádeginu með Heimsferðum afpöntuðu ferðina eftir tíðindi morgunsins um að búið væri að setja hótel á eyjunni í sóttkví vegna kórónuveirunnar Covid-19. Mbl.is greindi fyrst frá.
Greint var frá því í morgun að sjö Íslendingar væru í sóttkví á hótelinu eftir að ítalskur læknir, sem þar hafði dvalið, greindist með kórónuveiru.
Í samtali við Vísi segir Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða að 135 farþegar séu á leiðinni til Tenerife með Norwegian á vegum Heimsferða núna í hádeginu og í morgun hafi fimm einstaklingar afpantað ferðina. Þá séu ferðir til Tenerife á dagskrá um helgina og að engar afbókanir hafi borist vegna þeirra.

Að sögn Tómasar fylgist ferðaskrifstofan grannt með tíðindum frá Tenerife en geti sem stendur gert fátt annað en viðskiptavinum sínum á að kynna sér vel leiðbeiningar sóttvarnalæknis um hvernig lágmarka megi líkurnar á því að smitast af veirunni. Þá séu fararstjórar með á nótunum hvað varðar þessar leiðbeiningar.
Þá segir hann ekkert óeðlilegt við það Íslendingar séu smeykir, ekki síst þeir sem búi við undirliggjandi veikindi, eftir að veiran greindist á Kanaríeyjum enda sé alla jafna loftbrú frá Íslandi til eyjaklasans þar sem Íslendingar hafa vanið komið sína um áratugaskeið. Rekna megi með að allt að tvö þúsund Íslendingar séu á eyjunum alla jafna, þar með taldir þeir sem hafa þar fasta búsetu.
Von er á tveimur flugvélum til Keflavíkur frá Tenerife í kvöld. Annarri frá Norwegian á áttunda tímanum og hinni frá Icelandair á tíunda tímanum.