Innlent

Sjö Ís­lendingar í sótt­kví á Tenerife

Atli Ísleifsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Fjölmennt lögreglulið gætir hótelsins á Costa Adeje. Myndin er tekin á vettvangi í morgun.
Fjölmennt lögreglulið gætir hótelsins á Costa Adeje. Myndin er tekin á vettvangi í morgun. Vísir/Lóa Pind

Sjö Íslendingar eru í sóttkví á H10 Costa Adeje Palace-hótelinu á Tenerife, samkvæmt upplýsingum frá Þráni Vigfússyni, framkvæmdastjóra ferðaskrifstofunnar Vita.

Íslendingarnir eru í fríi sem keypt var í gegnum Vita og dvelja í tveimur herbergjum. Ekki er vitað hvort þeir séu allir á ferð saman.

Þráinn segir í samtali við Vísi að verið sé að safna upplýsingum um stöðu Íslendinganna.

Allir gestir Costa Adeje Palace-hótelsins eru í sóttkví og lögregla gætir innganga eftir að ítalskur læknir, sem þar hafði dvalið, greindist með Covid19-veiruna. Hann hafði verið um viku á Tenerife. Þetta er fyrsta tilfellið sem upp kemur á þessum vinsæla ferðamannastað þar sem fjöldi Íslendinga dvelur á hverjum tíma.

Enginn Íslendingur er á hótelinu á vegum Heimsferða, samkvæmt upplýsingum frá Tómasi J. Gestssyni framkvæmdastjóra Heimsferða. Heimsferðir hafi raunar ekki verið með farþega á hótelinu síðan í byrjun febrúar. Þá hefur hann ekki heyrt af neinum Íslendingum í sóttkví.

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals útsýnar hafði ekki fengið fregnir af því hvort einhverjir Íslendingar væru á hótelinu á vegum ferðaskrifstofunnar þegar Vísir náði tali af henni í morgun. Hún segir að verið sé að vinna í því að afla upplýsinga um stöðu mála.

Skilaboð sem hótelgestir fengu vegna ástandsins samkvæmt Sky-fréttastofunni.

Tvær flugvélar frá Tenerife, ein með Norwegian Air síðdegis og hin með Icelandair í kvöld, eru á áætlun til Keflavíkur í dag. Rögnvaldur Ólafsson lögreglufulltrúi hjá Almannavörnum segir í samtali við Vísi að ekki sé búið að grípa til sérstakra ráðstafana vegna kórónaveirunnar á Tenerife. Almannavarnir muni funda um málið í dag og fylgjast með þróun mála.

Átta norrænir gestir á vegum ferðaskrifstofunnar Tui eru í sóttkví á hótelinu, að því er norska dagblaðið VG hefur eftir Mikkel Hansen, fjölmiðlafulltrúa hjá Tui. Hansen segir að norrænu gestirnir séu frá Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Fyrst var greint frá því að gestirnir væru fimmtán en það reyndist ekki rétt.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×