Erlent

Fengu ó­­vart fimm­faldan skammt bólu­efnis

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Stralsund. Íbúar bæjarins eru um 60 þúsund talsins.
Frá Stralsund. Íbúar bæjarins eru um 60 þúsund talsins. Getty

Fjórir starfsmenn hjúkrunarheimilis í norðurhluta Þýskalands voru fluttir á sjúkrahús eftir að átta starfsmenn fengu fyrir mistök fimmfaldan, ráðlagðan skammt af bóluefni gegn Covid-19. Starfsmennirnir fjórir voru fluttir á sjúkrahús til að gæta allrar varúðar eftir að þeir fóru að finna fyrir flensulíkum einkennum.

Segja má að fjöldabólusetningin í Þýskalandi um helgina hafi þannig ekki farið hnökralaust af stað, en hjúkrunarheimilið sem um ræðir er að finna í borginni Stralsund, skammt frá Rostock, í Vorpommern-Rügen.

Deutsche Welle segir frá því að starfsmennirnir átta – sjö konur og einn karl – séu á aldrinum 38 til 54 ára, og hafi fengið sprautu af BioNTech-Pfizer bóluefninu í gær.

Stefan Kerth, æðsti embættismaður (þ. Landrat) í Vorpommern-Rügen, segist harma atvikið mjög og segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða. „Ég vonast til að hlutaðeigandi muni ekki upplifa neinar alvarlegar aukaverkanir.“

Yfirvöld í Vorpommern-Rügen hafa lagt áherslu á að BioNtech hafi gefið stærri skammta í fyrsta tilraunafasa bóluefnisins, án þess að nokkur alvarleg atvik hafi komið upp.

Bólusetning gegn Covid-19 hófst í Þýskalandi og öðrum aðildarríkjum ESB um helgina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×