Erlent

Enn stritað við samninga­borðið vegna Brexit-samnings sem er „innan seilingar“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það er fundað stíft í Brussel þessa dagana.
Það er fundað stíft í Brussel þessa dagana. AP/Virginia Mayo

Samninganefndir Breta og Evrópusambandsins sitja enn við samningaborðið um Brexit-samning sem sagður er vera „innan seilingar.“

Guardian greinir frá samkvæmt upplýsingum frá breska forsætisráðuneytinu. Í frétt Guardian segir að jafn vel hafi verið reiknað með að samningarnir yrðu kynntir í kvöld, samninganefndirnar hafi hins vegar ákveðið að taka sér örlítið lengri tíma þar sem um gríðarlega flókinn og langan samning er um að ræða.

Fara þarf yfir tvö þúsund blaðsíður af lagatexta en nái Bretar og ESB saman um viðskiptasamning sem taki gildi áður en svokallað aðlögunartímabil án samnings átti að hefjast 1. janúar næstkomandi, með ófyrirsjáanlegum efnahagslegum afleiðingum, þar sem Bretland mun yfirgefa innri markað og tollabandalag ESB um áramótin, hvort sem samningar nást eða ekki.

Laura Kuenssberg, ritstjóri stjórnmálaumfjöllunar fréttastofu BBC, segir á Twitter að samninganefndirnar séu núna að ræða ákveðna kvóta á ákveðna tegundir fisks, en að ríkisstjórn Bretlands hafi verið kölluð á símafund. Segir hún það til marks um það að forsætisráðuneytið telji að samningar muni nást innan tíðar.

Í frétt Guardian segir að fregnir frá Frakklandi um að Bretar hafi þurft að gefa mikið eftir til að ná samningum við ESB hafi ekki hjálpað til við samningaborðið í kvöld, auk þess sem að þar segir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafi viljað fá tíma til þess að undirbúa og afla stuðnings þeirra þingmanna Íhaldsflokksins sem hafa verið mest fylgjandi útgöngu Bretlands úr ESB.

Viðræðurnar fara fram í höfuðstöðvum framkvæmdastjórnar ESB í Brussel en um tíu-leytið að staðartíma kom þangað pítsasendill með talsvert magn af pítsum, sem mögulega er til marks um að viðræður muni standa fram á nótt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×