Íslenski boltinn

„Er löngu búið að ákveða að ráða Arnar Þór?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U-21 árs landsliðs karla og yfirmaður knattspyrnusviðs KSÍ, hefur verið orðaður sterklega við starf þjálfara karlalandsliðsins.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U-21 árs landsliðs karla og yfirmaður knattspyrnusviðs KSÍ, hefur verið orðaður sterklega við starf þjálfara karlalandsliðsins. vísir/vilhelm

Strákunum í Sportinu í dag finnst líklegt að Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sé búinn að ákveða hver eigi að vera næsti þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.

Guðni staðfesti í samtali við íþróttadeild í gær að KSÍ sé búið að ræða við Lars Lagerbäck og fleiri erlenda þjálfara um möguleikann á að taka við landsliðinu. Hann sagði einnig að KSÍ ætlaði að klára ráðningu á næsta þjálfara karlalandsliðsins áður en árið 2020 er úti.

Ríkharð Óskari Guðnasyni finnst langlíklegast að Arnar Þór Viðarsson verði maðurinn sem taki við landsliðinu af Erik Hamrén.

„Ég velti því fyrir mér, er hann [Guðni] bara að segja að hann sé búinn að tala við hina og þessa þjálfara því Heimir [Guðjónsson] og Rúnar [Kristinsson] sögðust ekkert hafa heyrt frá KSÍ um daginn. Er löngu búið að ákveða að ráða Arnar Þór Viðarsson og hann er bara að segja að það sé búið að tala við hina og þessa?“ sagði Ríkharð í Sportinu í dag.

Henry Birgir Gunnarsson sagðist vona að Guðni væri ekki búinn að ákveða næsta þjálfara og sé ekki búinn að ræða við aðra færa þjálfara með opnum hug. Hann sagði jafnframt að tímaramminn sem Guðni gaf gefi til kynna að hann sé búinn að ákveða sig.

Fyrsta stóra verkefni nýs landsliðsþjálfara er undankeppni HM 2022. Fyrstu þrír leikirnir í henni verða í mars og allir á útivelli.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×