Enski boltinn

Gjöfum stolið úr bíl leikmanns Chelsea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Reece James í leiknum gegn Wolves á þriðjudaginn sem Chelsea tapaði, 2-1.
Reece James í leiknum gegn Wolves á þriðjudaginn sem Chelsea tapaði, 2-1. getty/Darren Walsh

Gjöfum sem gefa átti til góðgerðarmála var stolið úr bíl Reece James, leikmanns Chelsea, í gær.

Þegar James sneri aftur í bílinn sinn eftir að hafa hjálpað til við að gefa bágstöddum börnum að borða í gær sá hann að rúðan hafði verið brotinn og allar gjafirnar sem voru í bílnum á bak og burt. Gjafirnar áttu að fara til góðgerðarmála.

„Önnur gefandi reynsla með Felix verkefninu í dag, að gefa ungu kynslóðinni að borða. Vonandi gátum við glatt einhverja fyrir þessi krefjandi jól,“ skrifaði James á Instagram og birti mynd af bílnum sínum sem búið var að brjótast inn í.

„Því miður varð ég fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sneri aftur í bílinn minn. Meðan á atburðinum stóð fann einhver hjá sér þörf til að stela gjöfum sem ég ætlaði að gefa seinna um daginn,“ bætti James við.

James, sem er 21 árs, hefur leikið fimmtán leiki í öllum keppnum með Chelsea í vetur og skorað eitt mark.

Næsti leikur James og félaga er gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni á mánudaginn. Í fyrradag tapaði Chelsea fyrir Wolves, 2-1. Pedro Neto skoraði sigurmark Úlfanna í uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×