Enski boltinn

Wenger talaði við Houllier nokkrum tímum áður en hann lést

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gérard Houllier og Arsene Wenger voru miklir vinir.
Gérard Houllier og Arsene Wenger voru miklir vinir. getty/PA Images

Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, var einn af þeim síðustu sem ræddu við Gérard Houllier, fyrrverandi stjóra Liverpool, áður en hann lést á mánudaginn.

Houllier var 73 ára þegar hann féll frá. Þremur vikum áður en hann lést gekkst hann undir hjartaaðgerð. Í síðasta samtali sínu við Wenger sagðist hann bjartsýnn að ná sér eftir aðgerðina.

„Við Gérard og David Dein [fyrrverandi stjórnarformaður Arsenal] ræddum saman á hverjum sunnudegi. Við gátum það þarsíðasta sunnudag þar sem Gérard var of veikur en gerðum það núna á sunnudaginn eins og við höfum gert síðan kórónuveirufaraldurinn skall á. Samtalið var styttra en venjulega. Oftast var það klukkutími en núna var það bara fimmtán mínútur,“ sagði Wenger.

„Hann var bjartsýnn eins og þjálfara er siður. Þess vegna eru þessar fréttir svo ósanngjarnar. Hann var svo hugrakkur að fara í þessa aðgerð. Þetta er erfitt. Hann vildi gangast undir aðgerðina í lok nóvember þegar við vorum að óttast aðra bylgju faraldursins. En hann var staðráðinn í að fara í aðgerðina því hann hafði lifað við þessa ógn svo lengi.“

Houllier glímdi við hjartavandamál allt frá því hann fékk hjartaáfall í hálfleik í leik Liverpool og Leeds United haustið 2001. Hann gekkst undir viðamikla aðgerð en sneri aftur til starfa aðeins fimm mánuðum eftir hana.

Wenger syrgir kollega sinn og landa og segir Houllier hafa verið einstakan mann. „Hann var ótrúlega klár, hann elskaði fótbolta heitt og var örlátur. Hann var fljótur að skilja hluti og átti auðvelt með að setja sig í spor annarra. Og hann var jákvæður. Þess vegna er þetta svona mikið áfall. Franskur fótbolti hefur misst sterka rödd og hann var frábær stjóri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×