Íslenski boltinn

Hólmfríður aftur á Selfoss eftir stutta Noregsdvöl

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir á ferðinni í bikarúrslitaleik Selfoss og KR í fyrra.
Hólmfríður Magnúsdóttir á ferðinni í bikarúrslitaleik Selfoss og KR í fyrra. vísir/daníel

Hólmfríður Magnúsdóttir er gengin í raðir Selfoss á ný eftir stutta dvöl hjá Avaldsnes í Noregi. Hún samdi til eins árs við Selfoss.

Hólmfríður yfirgaf Selfoss um miðjan september og gekk til liðs við Avaldsnes sem hún lék með á árunum 2012-16.

Hún lék sjö leiki með Avaldsnes og skoraði eitt mark. Liðið endaði í 3. sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

„Ég er þakklát fyrir tækifærið sem ég fékk í Noregi og það var gaman að spila aftur fyrir Avaldsnes. En nú er ég komin heim og hlakka til að klæðast Selfosstreyjunni á nýjan leik. Það er spennandi tímabil framundan eftir mjög sérstakt knattspyrnusumar 2020,“ segir Hólmfríður í fréttatilkynningu frá Selfossi.

Hólmfríður lék ellefu leiki með Selfossi í Pepsi Max-deild kvenna í sumar og skoraði tvö mörk. Hún lék mjög vel með Selfyssingum sumarið 2019 og átti stóran þátt í að þeir urðu bikarmeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Hólmfríður lék með íslenska landsliðinu gegn því sænska í október. Það var fyrsti landsleikur hennar í þrjú ár, eða síðan á EM 2017. Hólmfríður er næstmarkahæsti leikmaðurinn í sögu landsliðsins með 37 mörk. Hún á 113 landsleiki á ferilskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×