Enski boltinn

PSG ætlar að gera aðra tilraun til að fá Alli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dele Alli á varamannabekknum þar sem hann hefur eytt stærstum hluta þessa tímabils.
Dele Alli á varamannabekknum þar sem hann hefur eytt stærstum hluta þessa tímabils. getty/Julian Finney

Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain ætla að reyna að fá Dele Alli á láni frá Tottenham þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í janúar.

PSG reyndi að fá Alli í sumar en án árangurs. Frönsku meistararnir eru þó ekki búnir að gefast upp og ætla að gera aðra tilraun til að fá enska landsliðsmanninn í næsta mánuði.

Alli, sem er 24 ára, hefur fengið fá tækifæri með Tottenham á þessu tímabili. Hann hefur aðeins spilað átta leiki í öllum keppnum í vetur og ekki verið í leikmannahópi Spurs í ensku úrvalsdeildinni í rúma tvo mánuði. 

Alli var ónotaður varamaður þegar Tottenham sigraði Antwerpen, 2-0, í Evrópudeildinni í gær. Eftir leikinn sagði José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, að það væri ómögulegt að halda öllum leikmönnum í hópi Spurs ánægðum.

Eftir að Mourinho notaði sína fimmtu og síðustu skiptingu fór Alli inn í búningsklefa en sneri reyndar aftur. Mourinho virtist þó ekki kippa sér mikið upp við það.

Tottenham keypti Alli frá MK Dons 2015. Hann hefur leikið 230 leiki fyrir Spurs og skorað 64 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×