Erlent

Spænska ríkið rak afkomendur einræðisherrans á dyr

Samúel Karl Ólason skrifar
Sumarbústaður Francos, Pazo de Meiras. Húsið var byggt af rithöfundinum Emila Pard-Bazan á árunum 1893 til 1907.
Sumarbústaður Francos, Pazo de Meiras. Húsið var byggt af rithöfundinum Emila Pard-Bazan á árunum 1893 til 1907. EPA/Cabalar

Ríkisstjórn Spánar hefur nú tekið formlega við eignarhaldi sumarhallar einræðisherrans Franco og vísað afkomendum hans á dyr. Með höllinni fylgdi stórt listasafn en eignin var metin á rúmlega fimm milljónir evra í fyrra.

Um er að ræða glæsihýsi sem reist var á árunum 1893 til 1907 og af rithöfundinum Emila Pard-Bazan. Höllin ber nafnið Pazo de Meiras og Franco keypti hana með opinberu fé árið 1941. Hann notaði hana um árabil sem sumarbústað.

Núverandi ríkisstjórn Spánar hefur lagt mikið púður í afmá ummerki einræðisstjórnar Franco. Sérfræðingar telja að rúmlega hálf milljón manna hafi dáið í borgarastyrjöld Spánar 1936 til 1939 og að ríkisstjórn Francos hafi myrt um 150 þúsund þar til viðbótar. Einræðisherrann dó svo árið 1975.

Í september komst spænskur dómstóll að þeirri niðurstöðu að eignarhald Francos yfir Pazo de Meiras væri ólöglegt og að fjölskylda hans ætti að yfirgefa höllina. Áfrýjun þeirra var svo hafnað.

Samkvæmt frétt Reuters notaði Franco peninga sem söfnuðust í borgarastyrjöldinni til að kaupa eignina árið 1941. Dómstólinn sagði að peningunum hefði verið safnað til ríkisins og því ættu afkomendur Francos ekki rétt á því að eiga höllina.

Fyrr í vikunni var birt yfirlit yfir eignina og það sem henni fylgir. Þar er um að ræða nærri því 700 muni sem eru listaverk eða þykja hafa sagnfræðilegt gildi og þar á meðal eru tvær styttur úr Santiago de Compostela dómkirkjunni. Þar eru einnig um þrettán þúsund bækur.

Emilio Silva, sem stýrir samtökum um endurheimtu sagnfræðilegra minja, sagði Reuters að yfirlitið sýni að nauðsynlegt sé að gera úttekt á eigum afkomenda Francos. Þá sagði borgarstjóri Sada, þar sem höllin er staðsett, að hann vildi að henni yrði breytt í safn um Emilia Pardo-Bazan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×