Erlent

Forsætisráðherra og fyrrverandi ráðherrar ákærðir vegna sprengingarinnar í Beirút

Samúel Karl Ólason skrifar
Deilt er um það hvort að rífa eigi rústir geymsluturnanna sem standa enn á hafnarsvæðinu í Beirút. Ein fylking segir rústirnar að hruni og komnar og því hættulegar. Einhverjir vilja varðveita þá. Gígurinn sem sést hér fyrir framan turnana myndaðist í sprengingunni.
Deilt er um það hvort að rífa eigi rústir geymsluturnanna sem standa enn á hafnarsvæðinu í Beirút. Ein fylking segir rústirnar að hruni og komnar og því hættulegar. Einhverjir vilja varðveita þá. Gígurinn sem sést hér fyrir framan turnana myndaðist í sprengingunni. AP/Hussein Malla

Dómari sem hefur rannsakað gífurlega stóra og mannskæða sprengingu sem varð í höfn Beirút í Líbanon í ágúst hefur ákært Hassan Diab, fráfarandi forsætisráðherra landsins, og þrjá fyrrverandi ráðherra. Þeir eru allir ákærðir fyrir vanrækslu og að hafa þannig valdið sprengingunni.

Þetta hefur AFP fréttaveitan eftir heimildarmönnum sínum í Líbanon.

Hundruð dóu og þúsundir slösuðust þegar 2.750 tonn af ammóníum nítrati, sem notað er í áburð og sprengiefni, sprungu í vöruskemmu á hafnarsvæði Beirút þann 4. ágúst.

Embættismenn höfðu ítrekað verið varaðir við hættunni. Diab og Michel Aoun, forseti, höfðu fengið bréf um málið rúmum tveimur vikum fyrir sprenginguna.

Efnin höfðu þá verið í vöruskemmunni um árabil. Þeim var komið fyrir í vöruskemmunni árið 2014 þegar það var tekið úr skipi sem að endingu var gert upptækt. Þar voru einnig geymdir flugeldar.

Opinber gögn hafa sýnt að hafnarstarfsmenn og aðrir reyndu ítrekað að losna við efnin í gegnum árin.

Sjá einnig: Varaðir við hættunni í síðasta mánuði

Diab sagði af sér í sumar en hefur ekki enn látið af embætti. Þegar hann sagði af sér sagðist hann hafa komist að þeirri niðurstöðu að spillingin í Líbanon væri „stærri en ríkið“.

Saad Hariri var skipaður í embætti forsætisráðherra í þriðja sinn.

Líbanon gengur nú í gegnum margskonar krísur og vandræði sem má að miklu leyti rekja til spillingar og vanstjórnar. Efnahagur landsins stendur verulega höllum fæti og það sama má segja um stjórnkerfi landsins. Við það bætist svo veruleg andstaða íbúa Líbanon við ráðandi fylkingar þar í landi, sem hafa stjórnað um áraskeið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.