Erlent

Biður græn­lensku börnin af­sökunar

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur sent þeim einstaklingum sem enn eru á lífi opið bréf.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur sent þeim einstaklingum sem enn eru á lífi opið bréf. AP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur beðið 22 Grænlendinga, sem voru sem börn teknir af fjölskyldum sínum og fluttir nauðugir til Danmerkur árið 1951, opinberlega afsökunar.

Danska ríkisstjórnin og heimastjórn Grænlands kynntu í morgun skýrslu rannsóknarnefndar um málið. DR segir frá því að tilgangur þess að börnin hafi verið send til Danmerkur á sínum tíma hafi að sögn verið að skapa þeim betra líf, en eftir því sem árin liðu fór málið að snúast um að nýta börnin sem „brú“ milli Danmerkur og Grænlands með það að markmiði að það gæti nýst uppbyggingu og þróun á Grænlandi.

Rannsóknin sneri meðal annars að aðdraganda tilraunarinnar, hvaða börn hafi orðið fyrir valinu, hverjar aðstæður og upplifun barnanna voru í Danmörku og Grænlandi og þær mannlegu afleiðingar sem tilraunin hafði á umrædd börn.

„Ég hef fylgst með málinu í mörg ár og þeir miklu, mannlegu harmleikir sem þarna koma við sögu snerta mig enn mikið,“ sagði Frederiksen í morgun.

Hún segir ljóst að hagsmunir barnanna hafi fengið að víkja. „Þau misstu tengslin við fjölskyldur sínar og ætt, lífssögu þeirra, til Grænlands og þar með til síns fólks. Við getum ekki breytt því. Þetta gerðist. En við getum axlað ábyrgð og beðið þá afsökunar sem við hefðum átt að passa upp á, en brugðumst,“ sagði danski forsætisráðherrann í dag.

Frekeriksen hefur sent bréf til umræddra einstaklinga, en af þeim eru sex enn á lífi.

Flest börnin sneru aftur til Grænlands eftir rúmt ár í Danmörku. Var mörgum þeirra komið fyrir á upptökuheimilum í Nuuk, en sex barnanna urðu eftir í Danmörku og ættleidd af dönskum fjölskyldum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×