Erlent

Veitinga­staðir og barir loki og elstu grunn­skóla­börnin send heim

Atli Ísleifsson skrifar
Veitingastöðum, börum, leikhúsum og kvikmyndahúsum í Danmörku verður gert að loka.
Veitingastöðum, börum, leikhúsum og kvikmyndahúsum í Danmörku verður gert að loka. Getty

Danska ríkisstjórnin kynnir hertar takmarkanir sem ætlað er að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar á fréttamannafundi klukkan 11 að íslenskum tíma. Heimildir danskra fjölmiðla herma að aðgerðirnar snúist meðal annars um að senda öll grunnskólabörn í 5. bekk og á eldri stigum. Þá verði öllum veitingastöðum, börum, kvikmyndahúsum og leikhúsum gert að loka.

TV2 hefur þetta eftir fjölda ónafngreindra heimildarmanna, en aðgerðirnar munu ná til alls 38 sveitarfélaga í landinu, þar á meðal Kaupmannahafnar, Árósa, Óðinsvéa, auk fjölda sveitarfélaga í grennd við höfuðborgina og annars staðar á Sjálandi.

Ekki liggur fyrir hvað takmarkanirnar munu standa lengi, en Ritzau segir að þær muni taka gildi á miðvikudag.

Þá segir að enn fleiri starfsmenn hins opinbera verði nú gert að sinna vinnu að heiman.

Uppfært 11:40:

Mette Frederiksen kynnti aðgerðirnar á fréttamannafundi klukkan 11. Þær taka gildi á miðvikudaginn og gilda til 3. janúar hið minnsta. Sagði Frederiksen að grunnskólanemendur í 5. til 9. bekk verði send heim og fjarkennsla tekin upp líkt og tíðkast hefur í framhaldsskólum og háskólum. Staðnám yrði þó áfram fyrir grunnskólabörn í 1. -4. bekk.

Forsætisráðherrann sagði ennfremur að líkamsræktarstöðvum yrði lokað líkt og veitingahúsum, börum, kvikmyndahúsum og leikhúsum. Veitingahúsum yrði þó áfram heimilt að selja mat til heimsendingar.

Forsætisráðherrann beindi því ennfremur til landa sinna að ekki skyldu fleiri en tíu manns koma saman til að halda upp á jólin. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×