Erlent

Trump sagður ætla að náða fyrrverandi ráðgjafa sinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Michael Flynn, fyrrverandi undirhershöfðingi, entist aðeins 24 daga í starfi þjóðaröryggisráðgjafa Trump eftir að í ljós kom að hann hafði logið um samskipti sem hann átti við sendiherra Rússlands eftir kosningarnar 2016 en áður en Trump tók við völdum.
Michael Flynn, fyrrverandi undirhershöfðingi, entist aðeins 24 daga í starfi þjóðaröryggisráðgjafa Trump eftir að í ljós kom að hann hafði logið um samskipti sem hann átti við sendiherra Rússlands eftir kosningarnar 2016 en áður en Trump tók við völdum. vísir/EPA

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins, er á meðal nokkurra einstaklinga sem Donald Trump, fráfarandi forseti, er sagður ætla að náða á síðustu vikum sínum í embætti. Flynn játaði í tvígang að hafa logið að alríkislögreglumönnum um samskipti sín við rússneskan sendiherra áður en Trump tók við völdum.

Mál Flynn hefur velkst um fyrir alríkisdómstól eftir að dómsmálaráðuneyti Trump ákvað óvænt að draga til baka ákæru á hendur fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafanum í maí. Dómarinn í málinu lagðist gegn því. Nær fordæmalaust er sagt að ráðuneytið felli niður ákæru í máli þar sem játning liggur fyrir. Saksóknarar ráðuneytisins voru sagðir ósáttir við ákvörðunina og telja hana benda til pólitískra afskipta.

Áður hafði Flynn reynt að draga játningar sínar til baka og hóf að halda því fram að hann væri fórnarlamb samsæris alríkislögreglunnar og saksóknara. Lögmenn Trump forseta sem reyna að hnekkja úrslitum forsetakosninganna úthýstu Sidney Powell, lögmanni Flynn, í vikunni en hún hefur haldið fram framandlegum samsæriskenningum um meint kosningasvik.

New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að Trump ætli sér að náða Flynn og nokkra aðra einstaklinga áður en hann lætur af embætti 20. janúar. Trump hefur ítrekað lýst yfir stuðningi við Flynn.

Fráfarandi Bandaríkjaforsetar hafa stundum nýtt lokadaga sína í embætti til þess að náða fólk. Bill Clinton sætti harðri gagnrýni þegar hann náðaði auðugan kaupsýslumann sem hafði látið fé af hendi rakna til Demókrataflokksins rétt áður en hann yfirgaf Hvíta húsið.

Áður hefur Trump náðað eða mildað refsingu yfir bandamönnum sínum. Hann mildaði dóm yfir Roger Stone, vini sínum og ráðgjafa, sem var dæmdur sekur fyrir ýmsa glæpi, þar á meðal að ógna vitni.


Tengdar fréttir

Stærstu hneykslismál Trump

Donald Trump hefur staðið í ströngu í árum sínum í embætti. Hér förum við yfir nokkur mál sem hafa valdið hvað mestu fjaðrafoki.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.