Enski boltinn

Solskjær: Þurftum á þessum sigri að halda

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. vísir/Getty

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, var glaður í bragði eftir að hafa séð sína menn leggja West Bromwich Albion að velli á Old Trafford í kvöld.

„Það er gott að fá sigur eftir landsleikjatörnina. Við þurftum á þessum sigri á heimavelli að halda. Þetta stóð tæpt en við hefðum átt að skora eitt eða tvö mörk til viðbótar. Þá hefðum við getað verið rólegri í restina,“ sagði Ole Gunnar og hrósaði markverði sínum sérstaklega.

„Það er aldrei þægilegt að hafa eins marks forystu gegn góðum liðum. Þeir fengu fín færi og David (De Gea) varði tvisvar frábærlega. Það er stutt á milli í þessu en við erum ánægðir og nú þurfum við að byggja á þessu. Vonandi getum við náð að komast á sigurbraut.“

Eina mark leiksins kom úr vítaspyrnu sem var endurtekin þar sem Sam Johnstone, markvörður WBA, var farinn of snemma af línunni þegar hann varði spyrnu Bruno Fernandes.

„Þetta er það sama og David (De Gea) lenti í fyrr á leiktíðinni þegar hann var kominn aðeins af línunni. Þetta er kannski helsti kosturinn við skottækni Bruno (Fernandes). Markmennirnir fara aðeins of snemma af stað,“ sagði Solskjær sem var sammála vítaspyrnudómnum.

„Það er hægt að ræða reglurnar um hendi eða ekki hendi endalaust en með VAR er auðvelt að sjá það og lítil snerting getur verið nóg. Þetta er annað en þegar ég var að spila þegar maður þurfti að vera negldur niður til að fá vítaspyrnu,“ sagði Ole Gunnar, léttur í bragði í leikslok.


Tengdar fréttir

VAR áberandi þegar Man Utd marði sigur á WBA

Manchester United hefur ekki enn unnið heimaleik í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og West Bromwich Albion er án sigurs eftir fyrstu átta umferðirnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.