Erlent

Sonur Bandaríkjaforseta smitaður af veirunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump yngri er nú sagður í einangrun í veiðikofa á meðan hann nær sér af kórónuveirusmiti.
Trump yngri er nú sagður í einangrun í veiðikofa á meðan hann nær sér af kórónuveirusmiti. Vísir/EPA

Donald Trump yngri, sonur og nafni Bandaríkjaforseta, greindist smitaður af kórónuveirunni í byrjun síðustu viku. Talsmaður hans segir að hann sé einkennalaus en að hann sé nú í einangrun í veiðikofa sínum.

Fjölmörg smit kórónuveiru hafa komið upp í kringum Trump forseta og Hvíta húsið á undanförnum mánuðum. Forsetahjónin smituðust bæði í haust sem og unglingssonur þeirra Barron. Kimberly Guilfoyle, kærasta Trump yngri greindist sömuleiðis smituð í júlí. Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, er á meðal fjölda ráðgjafa forsetans sem hafa smitað.

Þá hefur verið greint frá því að á annað hundrað leyniþjónustumanna sem gæta öryggis Trump forseta og hafa þurft að fylgja honum á kosningafundi og aðra viðburði víðsvegar um landið hafi smitast af veirunni.

Trump yngri hefur tekið þátt í því með föður sínum að gera lítið úr alvarleika kórónuveirufaraldursins sem hefur dregið um 250.000 manns í Bandaríkjunum til dauða. Í nýlegu viðtali hélt sonur forsetans því fram að dánartíðni af völdum Covid-19 væri „nánast engin“ og að yfirvöld hefðu stjórn á faraldrinum. Í gær greindust 192.000 manns smitaðir af veirunni vestanhafs.

Vangaveltur hafa lengi verið um að Trump yngri hafi áhuga á að bjóða sig sjálfur fram til forseta þegar fram líða stundir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.