Guardiola grátt leikinn af lærisveinum Mourinho

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mourinho hafði betur gegn Guardiola í þetta skiptið.
Mourinho hafði betur gegn Guardiola í þetta skiptið. vísir/Getty

Það var boðið upp á stórleik í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld þegar Tottenham fékk Manchester City í heimsókn í Lundúnum.

Liðunum stýrt af tveimur af sigursælustu knattspyrnustjórum seinni ára, þeim Jose Mourinho og Pep Guardiola sem hafa marga hildina háð á undanförnum árum.

Leikurinn var tæplega fimm mínútna gamall þegar Heung-Min Son slapp inn fyrir vörn Man City. Suður-Kóreumaðurinn skoraði örugglega framhjá Ederson og heimamenn komnir í forystu.

Aymeric Laporte virtist vera að jafna metin eftir tæplega hálftíma leik en markið var dæmt af eftir að hafa verið skorað af VAR þar sem Gabriel Jesus handlék knöttinn í aðdraganda marksins.

Gestirnir sóttu án afláts en sterkur varnarleikur heimamanna gerði það að verkum að Hugo Lloris þurfti sjaldan að taka á honum stóra sínum.

Giovani Lo Celso kom inn á sem varamaður á 64.mínútu og hann hafði verið inn á vellinum í rétt rúmar 30 sekúndur þegar hann tvöfaldaði forystu Tottenham eftir góðan undirbúning Harry Kane.

Fleiri urðu mörkin ekki og 2-0 sigur Tottenham staðreynd. Sanngjörn úrslit þó Man City hafi verið miklu meira með boltann í leiknum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.