Innlent

Leggja fram þings­á­lyktunar­til­lögu um Sunda­braut í einka­fram­kvæmd

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. vísir/Vilhelm

Þingsályktunartillaga sem kveður á um að samgönguráðherra verði falið að bjóða út hönnun, fjármögnun og rekstur Sundabrautar í einkaframkvæmd hefur verið lögð fram á Alþingi.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í umræðum um störf þingins á Alþingi í dag ætla leggja tillöguna fram ásamt fleiri þingmönnum.

„Þannig fá einkaaðilar tækifæri til að glíma við það sem hið opinbera hefur verið með til umræðu í 50 ár. Sjáum hvort einkaframtakið treysti sér til að framkvæma verkefni frá A til Ö án fjármagns frá ríkinu, en í stað heimild til að rukka veggjöld,“ sagði Bryndís.

Hún sagði höfuðborgarsvæðið hafa verið skilið eftir í uppbyggingu samgöngumannvirkja. Á tíu ára tímabili hafi aðeins 17% af framkvæmdafé Vegagerðarinnar farið til svæðisins. Þetta horfi þó til bóta með fyrirhuguðum framkvæmdum við borgarlínu.

„En meira þarf til. Við þurfum nefnilega bæði borgarlínu og Sundabraut,“  sagði hún og bætti við að Sundabraut væri einn dýrasti raunhæfi framkvæmdamöguleikinn sem til skoðunar sé í vegakerfinu.

Ef ráðast ætti í verkið þyrfti því annað hvort að auka framlög til nýframkvæmda umtalsvert, eða draga saman á öðrum stöðum. „Hvorug þessi leið er æskileg,“ sagði Bryndís og bætti við að því þyrfti að skoða möguleikann á einkaframkvæmd.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.