Erlent

Sam­komu­lag í höfn um að öllum minkum í Dan­­mörku skuli lógað

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að um 14 milljónir minka séu á minkabúum í Danmörku.
Áætlað er að um 14 milljónir minka séu á minkabúum í Danmörku. AP

Ríkisstjórn Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur tekist að ná meirihluta á þingi um það að lóga öllum þeim 14 milljónum minka sem eru í landinu. Tilkynningin kemur á sama tíma og greint er frá því að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunni hafi fundist á nokkrum minkabúum til viðbótar í landinu.

Danskir fjölmiðlar segja Jafnaðarmannaflokk Frederiksens hafa náð samkomulag við samstarfsflokkana Enhedslisten, SF, De Radikale og Alternativet um aðgerðina.

Mogen Jensen, matvælaráðherra Danmerkur, kveðst mjög ánægður með að samkomulagið sé í höfn og að vonandi verði hægt að einhverja sátt um þann stórfellda niðurskurð sem þarf að ráðast í. „Þetta hefur verið óreiðukennt ferli, ég er fyrstur til að viðurkenna það,“ segir ráðherrann í samtali við DR.

Samkomulagið felur meðal annars í sér að ræktendur fái 30 danskar krónur á hvern mink sem er aflífaður. Þá verður óheimilt að rækta minka í landinu til ársloka 2021.

Fyrr í haust var greint frá því að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar hafi fundist á fjölda minkabúa í Danmörku og hafði veiran borist í fólk. 4. nóvember síðastliðinn greindi Frederiksen frá því að ákveðið hafi verið að lóga öllum minkum í landinu. Ákvörðunin sætti hins vegar mikilli gagnrýni eftir að í ljós kom að ríkisstjórnin hafði ekki lagaheimild til að grípa til þessa ráðs og hafa spjótin beinst sérstaklega að matvælaráðherranum Jensen.

Þingmenn munu nú greiða atkvæði um lagafrumvarpið en eins og áður sagði hefur samkomulag náðst og er fastlega gert ráð fyrir að meirihluti þingmanna muni greiða atkvæði með.


Tengdar fréttir

Danskir minkabændur ósáttir

Danmerkurstjórn fékk upplýsingar um að hún mætti ekki fyrirskipa að allir minkar í landinu yrðu drepnir meira en viku áður en Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti um fyrirskipun þess efnis.

Mette baðst afsökunar á ólöglegri fyrirskipun

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, baðst í dag afsökunar og sagði að danska dýra- og matvælaeftirlitið hefði gert mistök með því að krefjast þess að allir minkar landsins verði drepnir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×