Fótbolti

Mark­vörður Dana finnur til með Ís­lendingum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kasper með boltann í leik Íslands og Danmerkur á Laugardalsvelli. Gylfi Þór Sigurðsson og Birkir Bjarnason bíða átekta.
Kasper með boltann í leik Íslands og Danmerkur á Laugardalsvelli. Gylfi Þór Sigurðsson og Birkir Bjarnason bíða átekta. Vísir/Vilhelm

Kasper Schmeichel, markvörður danska landsliðsins í fótbolta og enska úrvalsdeildarfélagsins Leicester City, finnur til með íslenska landsliðinu eftir grátlegt 2-1 tap liðsins gegn Ungverjum á fimmtudaginn var. Leikurinn var hreinn úrslitaleikur um hvor þjóðin færi á EM.

Hann segir ennig að hann geti sett sig í spor íslenska liðsins. Schmeichel ræddi við Jyllands-Posten fyrir leik Danmerkur og Íslands sem fram fer í kvöld.

„Ef ég hefði verið í þessum aðstæðum hefði ég viljað komast eins fljótt og hægt er út á völl aftur. Fá að spila leik og fá góða tilfinningu á ný,“ sagði Schmeichel í viðtalinu. Þá sagðist hann skilja hvernig íslenska liðinu líður.

„Get sett mig í þeirra spor þar sem við töpuðum gegn Svíþjóð í umspili. Það sem ég vildi mest af öllu eftir þann leik var að komast út á völl að spila á nýjan leik.“

Varðandi leikinn í kvöld

„Ég get ímyndað mér að þeir mæti vel stemmdir til leiks og tilbúnir í leikinn. Þeir vilja eflaust standa sig vel í síðustu leikjum þjálfarans og kveðja hann á góðu nótunum,“ sagði markvörðurinn öflugi að lokum.

Erik Hamrén, þjálfari íslenska landsliðsins, tilkynnti á blaðamannafundi fyrir leikinn að hann yrði ekki áfram með liðið eftir að leikjunum í Þjóðadeildinni væri lokið.

Ísland mætir Danmörku í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport í kvöld. Upphitun hefst klukkan 19.00 og leikurinn svo 19.45.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×