Fótbolti

Þjálfari Dana segir engan reikna með auð­veldum leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kasper Hjulmand, þjálfari Dana, reiknar með erfiðum leik á morgun.
Kasper Hjulmand, þjálfari Dana, reiknar með erfiðum leik á morgun. vísir/getty

Kasper Hjulmand, þjálfari danska karlalandsliðsins í fótbolta, segir engan í hóp danska liðsins reikna með auðveldum leik gegn Íslandi á morgun. Telur hann að ákvörðum Erik Hamrén – sem hættir með íslenska landsliðið að loknum leikjunum gegn Danmörku og Englandi – gæti þýtt að leikmenn Íslands leggi enn meira á sig.

„Ég ber gríðarlega virðingu fyrir íslenska liðinu, leikmönnum þess og þeim gildum sem það stendur fyrir. Leikurinn verður mjög erfiður og það er enginn hér í danska hópnum sem á von á auðveldum leik,“ sagði Hjulmand á blaðamannafundi Dana nú í hádeginu.

„Nei ég tel ekki að það muni hafa neikvæð áhrif á íslenska liðið að Hamrén sé að hætta með liðið. Leikmenn vilja eflaust kveðja hann á góðu nótunum og munu gefa sig alla í verkefnið. Þá eru mögulega sumir af leikmönnunum að spila sína síðustu leiki, hver veit.“

„Það gæti verið að íslenska liðið komi enn ákveðnara inn í leikin eftir vonbrigðin í Ungverjalandi. Leikur gegn Dönum á Parken er alltaf stórleikur á Íslandi og við þurfum að vera tilbúnir að jafna þá baráttu og þann vilja sem íslenska liðið mun koma með í leikinn,“ sagði Hjulmand um leik morgundagsins.

Þá hrósaði hann kollega sínum Hamrén að lokum.

„Ég þekki Hamrén vel, höfum þjálfað í sömu deild. Hann er góð manneskja og mjög góður þjálfari. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og hlakka til að hitta hann á morgun þar sem ég mun óska honum alls hins besta.“

Hjulmand nefndi einnig að Danir væru í stöðu til að komast í úrslit og að það muni gefa danska liðinu byr undir báða vængi.

Leikur Danmerkur og Íslands verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 klukkan 19.45 annað kvöld. Upphitun hefst klukkutíma fyrr.


Tengdar fréttir

Svona var blaða­manna­fundurinn fyrir leikinn gegn Dönum

Erik Hamrén og Aron Einar Gunnarsson ræddu við fjölmiðla fyrir leik Danmerkur og Íslands í Þjóðadeildinni sem fram fer á morgun. Þar kom fram að Hamrén mun hætta sem þjálfari landsliðsins að loknu þessu verkefni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.