Fótbolti

Elísa­bet komin með UEFA Pro þjálfara­gráðu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elísabet er nú komin með UEFA Pro þjálfararéttindi.
Elísabet er nú komin með UEFA Pro þjálfararéttindi. Kristianstads

Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari sænska úrvalsdeildarliðsins Kristianstads, er nú komin með UEFA Pro þjálfaragráðu.

Hin 44 ára gamla Elísabet hefur þjálfað Kristianstads við góðan orðstír frá árinu 2011. Þar áður hafði hún þjálfað ÍBV, Breiðablik og Val hér á landi ásamt því að stýra U21 árs landsliði Íslands og aðstoða A-landsliðið um árabil.

Elísabet, eða Beta, eins og hún er nær alltaf kölluð var valin þjálfari ársins í Damallsvenskan – úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð – árið 2017.

Lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar fer fram klukkan 14.00 í dag og fær Kristianstads lið Linköpings í heimsókn. Með sigri gæti liðið stokkið upp í 2. sæti deildarinnar og tryggt sér silfur.

Svava Rós Guðmundsdóttir leikur með liðinu og þá er Sif Atladóttir einnig á mála hjá félaginu en hún hefur ekki getað leikið með því á leiktíðinni þar sem hún er í barneignarfríi.

Leikur Djurgården og Uppsala fer fram á heimavelli Djurgården liðsins, hefst klukkan 14.00 í dag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×