Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni á þjóðhátíð

Kjartan Kjartansson skrifar
Áreitnin átti sér stað á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ágúst árið 2018.
Áreitnin átti sér stað á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ágúst árið 2018. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á sjötugsaldri var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa áreitt kynferðislega stúlku sem þá var átján ára gömul á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina árið 2018. Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða ungu konunni 300.000 krónur í miskabætur.

Í ákæru kom fram að atvikið hefði átt sér stað á hringtorgi við Herjólfsdal. Stúlkan lýsti því fyrir dómi að maðurinn hefði sest við hliðina á sér, reynt að kyssa hana og stinga fingrum í munn hennar. Maðurinn hefði svo þrýst sér ofan á hana á káfað á henni. 

Vitni að atvikinu báru að maðurinn hefði káfað á klofi eða kynfærum stúlkunnar utanklæða. Stúlkan hafi verið hágrátandi skömmu eftir atvikið og sagt að káfað hefði verið á henni og hún snert á óviðeigandi hátt.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi en sagðist lítið muna eftir atvikum sökum ölvunar. Hann myndi eftir að hafa setið við hliðina á stúlku en hafnaði því að hafa beitt hana ofbeldi. Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist maðurinn ekki muna eftir atvikum en dró ekki í efa að hann hefði gert það sem hann var sakaður um.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi manninn í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og vísaði meðal annars til dráttar á rannsókn málsins við ákvörðun refsingarinnar. Stúlkan krafði manninn um milljón króna í miskabætur en dómurinn taldi 300.000 krónur hæfilegar.

Hann þarf auk þess að greiða málsvarnarlaun upp á 750.000 krónur, þóknun réttargæslumanns stúlkunnar upp á 600.000 krónur auk 75.000 króna í annan sakarkostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×