Erlent

Mun á­fram stýra landinu næstu fimm árin

Atli Ísleifsson skrifar
Aung San Suu Kyi hefur frá árinu 2016 stýrt landinu, en á þeim tíma sætt mikilli gagnrýni vegna meðferðar stjórnarhersins á Rohingjum í landinu.
Aung San Suu Kyi hefur frá árinu 2016 stýrt landinu, en á þeim tíma sætt mikilli gagnrýni vegna meðferðar stjórnarhersins á Rohingjum í landinu. Getty

Landskjörstjórn í Mjanmar staðfesti í morgun að Lýðræðislega þjóðarbandalagið, flokkur Aung San Suu Kyi, hafi tryggt sér nægilega mörg þingsæti til að stýra landinu næstu fimm árin. Kosningar fóru fram í landinu síðasta sunnudag.

AP segir frá því að flokkurinn hafi tryggt sér 346 þingsæti á þinginu hið minnsta, en 322 þarf til að ná meirihluta. Enn er verið að telja atkvæði og má telja líklegt að meirihlutinn verði enn meiri.

Suu Kyi hefur frá árinu 2016 stýrt landinu eftir að samkomulag náðist við herforingjastjórn landsins. Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1991 fyrir andóf sitt gegn herforingjastjórninni í Mjanmar, en hefur síðustu ár sætt gagnrýni um allan heim fyrir að koma ekki í veg fyrir ofbeldi stjórnarhersins sem hefur verið sakaður um þjóðernishreinsanir í tengslum við meðferð á Rohingjum í Rakhine-héraði.

Viðurkenna ekki niðurstöðu kosninganna

Kjörstjórn í Mjanmar segir stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, USDP , sem nýtur stuðnings hersins, hafa tryggt sér 25 þingsæti og flokkur þjóðarbrotsins Shan fimmtán. USDP hefur neitað að viðurkenna úrslit kosninganna og segir þær hafa verið ósanngjarnar. Hefur flokkurinn farið fram á nýjar kosningar verði haldnar.

Þrátt fyrir mikinn meirihluta flokks Suu Kyi verður það ekki raunin að flokkurinn muni alfarið stjórna landinu, en stjórnarskráin, sem leiðtogar hersins settu saman árið 2008, tryggir hernum sjálfkrafa fjórðung þingsæta. Hlutfallið er nægilega hátt til að koma í veg fyrir allar stjórnarskrárbreytingar og þá veitir stjórnarskráin hernum sömuleiðis rétt til að skipa sína menn í ákveðið mörg ráðherraembætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×