Erlent

Segir Rússa gruna að eitrað hafi verið fyrir Navalní á leið til Þýskalands

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. EPA/COSTAS BALTAS

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að ríkisstjórn Rússlands gruni að taugaeitrið Novichok, hafi borist í rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní þegar verið var að flytja hann til Þýskalands. Það var nokkrum dögum eftir að Navalní veiktist snögglega í flugvél yfir Síberíu og lenti í dái á sjúkrahúsi í borginni Ota.

Kíra Jarmísj, talskona Navalnís, segir yfirlýsingu Lavrov vera þá „heimskulegustu“ hingað til, samkvæmt frétt DW.

Navalní veiktist hastarlega í flugvél í Rússlandi 20. ágúst. Hann féll í dá og grunaði aðstandendur hans strax að eitrað hefði verið fyrir honum. Nokkrum dögum síðar var Navalní fluttur á sjúkrahús í Berlín. Sérfræðingar í Þýskalandi segja að honum hafi verið byrlað novichok, taugaeitur sem var þróað í Sovétríkjunum.

Vísindamenn í Svíþjóð og Frakklandi komust að sömu niðurstöðu sem vísindamenn Efna­vopna­stofnunarinnar hafa einnig staðfest.

Navalní hefur sakað Pútín um að standa að baki því að eitrað var fyrir honum. Því neita ráðamenn í Moskvu alfarið.

Evrópusambandið beitti í kjölfarið sex meðlimi ríkisstjórnar Rússlands viðskiptaþvingunum. Mennirnir voru taldir hafa komið að eitrun Navalní.

Lavrov segir að Rússar ætli að beita ráðamenn í Þýskalandi og Frakklandi eigin viðskiptaþvingunum. Þær muni beinast að æðstu starfsmönnum embættis kanslara Þýskalands og forseta Frakklands.

„Þar sem Þýskalands keyrði áfram þvinganir ESB gagnvart okkur í tengslum við mál Navalní og þar sem þær beinast gegn háttsettum starfsmönnum forsetaembættis Rússlands, eru okkar viðbrögð að bregðast við þeim,“ sagði Lavrov í dag.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×