Erlent

Efna­vopna­stofnunin stað­festir að Naval­ní var byrlað tauga­eitur

Kjartan Kjartansson skrifar
Efnavopnastofunin í Haag í Hollandi tók sín eigin sýni úr Navalní og greindi þau. Niðurstaðan var sú sama og Þjóðverjar, Frakkar og Svíar komust að: eitrað var fyrir rússneska stjórnarandstæðingnum sem taugeitrinu novichok.
Efnavopnastofunin í Haag í Hollandi tók sín eigin sýni úr Navalní og greindi þau. Niðurstaðan var sú sama og Þjóðverjar, Frakkar og Svíar komust að: eitrað var fyrir rússneska stjórnarandstæðingnum sem taugeitrinu novichok. Vísir/EPA

Eitrað var fyrir Alexei Navalní, rússneskum stjórnarandstæðingi, með taugaeitrinu novichok samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Efnavopnastofnunarinnar (OPCW). Stofnunin staðfestir niðurstöður þýskra og annarra vestrænna stjórnvalda.

Sérfræðingar OPCW greindu sjálfir sýni sem þeir tóku úr Navalní, sem veiktist hastarlega um borð í flugvél í Rússland í ágúst. Í yfirlýsingu frá stofnuninni segir að niðurstöðurnar hafi verið í samræmi við rannsóknir Þjóðverja, Frakka og Svía um að honum hafi verið byrlað novichok, taugeitur sem var þróað í Sovétríkjunum sálugu.

Fernando Arias, framkvæmdastjóri OPCW, segir niðurstöðurnar alvarlegt áhyggjuefni. Rússnesk stjórnvöld hafa ekki brugðist við yfirlýsingu stofnunarinnar. 

Dmitrí Peskov, talsmaður Vladímírs Pútín Rússlandsforseta, sagði ríkisstjórn sína þurfa að fara yfir skýrsluna áður. Rússar hafa áður þvertekið fyrir að hafa komið nálægt veikindum Navalní og hafa ekki talið ástæðu til þess að rannsaka þau sem sakamál.

„Þetta staðfestir enn og aftur ótvírætt að Alexei Navalní var fórnarlamb árásar með taugaeiturefni úr novichok-hópnum,“ sagði Steffen Seibert talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, um niðurstöður OPCW.

Navalní veiktist 20. ágúst og féll í dá. Í kjölfarið var hann fluttur á sjúkrahús í Berlín að kröfu aðstandenda sinna. Þar dvaldi hann í um mánuð áður en hann var útskrifaður. Navalní segir sjálfur að Pútín forseti hafi látið eitra fyrir sér vegna þingkosninga í Rússlandi. Hann hefur verið einn helsti stjórnarandstæðingur Rússlands undanfarin ár.

Bresk stjórnvöld sökuðu ríkisstjórn Pútín um að nota novichok til að eitra fyrir Sergei Skrípal, rússneskum fyrrverandi njósnara, og dóttur hans í bænum Salisbury á Englandi árið 2018. Nicola Stewart, aðstoðarfastafulltrúi Breta hjá OPCW, harmaði í dag að efnavopnið hefði aftur verið notað.

„Við erum hneyksluð að þetta skuli endurtekið annars staðar í heiminum,“ sagði Stewart.

Bresk kona lést þegar hún komst í snertingu við leifar taugaeitursins sem rússneskir útsendarar skildu eftir sig í Salisbury.


Tengdar fréttir

Segir Pútín hafa staðið að eiturárásinni

Alexei Navalní, rússneski stjórnarandstæðingurinn, sakar Vladímír Pútín, forseta Rússlands, um að hafa staðið að baki því að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu novichok í ágúst.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.