Erlent

Stjórnarandstaða Hong Kong hættir á einu bretti

Samúel Karl Ólason skrifar
Stjórnarandstöðuþingmenn Hong Kong tilkynntu í morgun að þeir ætluðu allir að segja af sér.
Stjórnarandstöðuþingmenn Hong Kong tilkynntu í morgun að þeir ætluðu allir að segja af sér. AP/Vincent Yu

Allir nítján stjórnarandstöðuþingmenn sem eftir eru í Hong Kong ætla að segja af sér í kjölfar þess að yfirvöld eyjunnar ráku fjóra aðra þingmenn af þingi. Ráðmenn í Peking gáfu yfirvöldum í Hong Kong heimild til að víkja þingmönnum úr starfi ef þeir styðji sjálfstæði Hong Kong, neiti að samþykkja fullveldi Kína yfir borginni, ógni þjóðaröryggi eða hvetji utanaðkomandi aðila til að hafa afskipti af málefnum borgarinnar.

Fjórir þingmenn, sem höfðu áður kallað eftir því að önnur ríki beittu Kínverja viðskiptaþvingunum, voru reknir einungis nokkrum mínútum eftir að þessar nýju reglur voru samþykktar í Peking í nótt. Því ákváðu hinir að segja af sér.

Samkvæmt South China Morning Post segja stjórnarandstöðuþingmennirnir að aðgerðir yfirvalda séu „fáránlegar“ og að lög Hong Kong hafi í raun verið felld niður. Ekki sé lengur hægt að tala um eitt land, tvö kerfi, eins og fyrirkomulagið hefur lengi verið kallað.

https://www.scmp.com/news/hong-kong/politics/article/3109330/top-beijing-body-makes-patriotism-mandatory-hong-kong

Hong Kong var yfirráðasvæði Breta um árabil þar til árið 1997. Þá var eyjan færð aftur undir stjórn meginlands Kína en samkvæmt samkomulagi Breta og Kínverja áttu ákveðin réttindi íbúa þar að vera tryggð í minnst 50 ár.

Kommúnistaflokkurinn hefur verið sakaður um að brjóta gegn því samkomulagi með kínverskum öryggislögum, sem tóku gildi þann 1. júlí og er ætlað að þagga í öllum gagnrýnisröddum. Umfangsmikil og langvarandi mótmæli hafa staðið yfir í Hong Kong vegna málsins á undanförnu ári.

Eftir afsagnirnar verða eingöngu þingmenn sem þykja hliðhollir meginlandinu eftir á þingi Hong Kong.

Carrie Lam, sem stjórnar í raun Hong Kong með blessun yfirvalda í Peking, sagði fyrr í dag að ekki standi til að halda sérstakar kosningar vegna brottreksturs þingmannanna fjögurra. Það verði haldnar kosningar eftir níu mánuði en þeim hafði verið frestað um ár vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar.

Stjórnarandstaðan hefur sakað yfirvöld um að nýta sér faraldurinn sem skálkaskjól til að meina fólki að kjósa.


Tengdar fréttir

Bandaríkjamenn beita Lam refsiaðgerðum

Bandaríska fjármálaráðuneytið sagðist í dag ætla að beita Carrie Lam, leiðtoga heimastjórnar Hong Kong, og tíu aðra embættismenn í Kína og Hong Kong refsiaðgerðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×