Enski boltinn

Man. United sagt ætla að blanda sér í baráttuna um Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar marki á síðasta tímabili sínu með Manchester United.
Cristiano Ronaldo fagnar marki á síðasta tímabili sínu með Manchester United. EPA/MAGI HAROUN

Stuðningsmenn Manchester United sáu táninginn Cristiano Ronaldo verða að einum besta fótboltamanni heims í búningi United og hafa síðan að hann fór til Real Madrid, eflaust látið sig dreyma um það að sjá hann spila aftur fyrir félagið.

Nú eru sagðar auknar líkur á því það gæti orðið að veruleika ef Juventus reynir að selja Portúgalann næsta sumar.

Það kom flestum á óvart þegar Cristiano Ronaldo yfirgaf Real Madrid sumarið 2018 en Juventus þurftu reyndar að borga hundrað milljónir fyrir hann og bjóða honum ofurlaun.

Ronaldo var nýbúinn að vinna Meistaradeildina í fimmta sinn þegar hann yfirgaf Real Madrid en hefur ekki náð að komast langt með Juventus í Meistaradeildinni síðan þá. Ronaldo hefur engu að síður orðið tvisvar sinnum ítalskur meistari og þá hefur hann skorað 71 mark í 94 leikjum fyrir félagið.

Spænska blaðið Sport sagði frá því um helgina að Juventus sé tilbúið að selja Ronaldo eftir 2020-21 tímabilið og auk þess að losna við að borga þessi ofurlaun hans þá mun ítalska félagið reyna að fá eitthvað til baka af því sem það greiddi fyrir Portúgalann sumarið 2018.

Cristiano Ronaldo hefur verið mikið orðaður við franska félagið Paris Saint Germain og Manchetser City var jafnvel komið inn í myndina ef Lionel Messi yrði áfram hjá Barcelona.

Fjölmiðlamaðurinn Christian Martin sagði aftur á móti 390 þúsund fylgjendum sínum á Twitter að hans heimildir frá bæði Manchester og Porto hermi að Manchester United sé að biðla til Cristiano Ronaldo um að hann snúi aftur til Manchester United.

Það fylgir sögunni að Juventus sé tilbúið að fara í samningaviðræður ef leikmaðurinn sjálfur biður um það.

Cristiano Ronaldo er nú 35 ára gamall en hann spilaði með Manchester United frá 2003 til 2009 eða á aldrinum 18 til 24 ára. Hann varð þrisvar enskur meistari með liðinu.

Ronaldo skoraði 118 mörk í 292 leikjum mðe Manchester United þar af 42 mörk í 49 leikjum tímabilið 2007-08 þegar liðið vann bæði Meistaradeildina og ensku úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×