Fótbolti

Telur ó­lík­legt að hann haldi á­fram starfi sínu hjá U21 lands­liði Ís­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eiður Smári hefur verið á hliðarlínunni hjá U21 árs landsliði Íslands síðan í ársbyrjun 2019.
Eiður Smári hefur verið á hliðarlínunni hjá U21 árs landsliði Íslands síðan í ársbyrjun 2019. Vísir/Bára

Eiður Smári Guðjohnsen ræddi stöðu sína hjá U21 árs landsliði Íslands þar sem hann er aðstoðarþjálfari er Rikki G ræddi við hann fyrr í dag. Ræddu þeir gengi FH-liðsins í sumar eftir að Eiður tók við, þá staðreynd að hann skrifaði nýverið undir tveggja ára samning sem aðalþjálfari liðsins og svo að sjálfsögðu landsleik Íslands og Ungverjalands um sæti á Evrópumótinu sem fram fer næsta sumar.

Innslagið má sjá hér að neðan en fleiri bútar úr spjalli þeirra munu birtast hér á Vísi í kvöld sem og á morgun.

„Erfiður tímapunktur núna. Við erum að fara inn í þessa viku – þar sem U21 spilar þrjá leiki sem leiða í ljós hvort liðið kemst á EM eður ei – og ég legg FH aðeins til hliðar, það er náttúrulega hlé á deildinni hér sem gerir mér það kleift að takast á við þessa viku sem er mjög spennandi hvað okkur varðar sem knattspyrnuþjóð,“ sagði Eiður Smári um stöðuna í dag og hélt áfram.

„Það er stórleikur hjá A-landsliðinu [gegn Ungverjum ytra um sæti á EM næsta sumar]. Það eru stórleikir hjá okkur í U21-liðinu þar sem – að ég tel – við eigum nokkuð góða möguleika á að komast á stórmót, sem væri í fyrsta sinn í langan tíma. Ég ýti FH aðeins til hliðar, tekst á við þessa viku og klára þessa keppni þar sem það eru þrír leikir eftir hjá okkur. Svo getum við sest niður og tekið ákvörðun út frá því.“

„Eðlilegast er að ég muni ekki halda áfram með U21 landsliðið. Hugsanlega kemur upp önnur staða ef við förum á stórmót og það er hlé á deildinni hér, þá mætti endurskoða það en þetta er eitthvað sem við eigum eftir að ræða og fara yfir,“ sagði Eiður Smári að lokum um stöðu sína hjá U21 landsliði Íslands en samningur hans þar rennur út í janúar næstkomandi.

Klippa: Telur ólíklegt að hann haldi áfram með U21

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×