Erlent

„Þau eru að reyna að stela kosningunum“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Trump í pontu í kvöld.
Trump í pontu í kvöld. Chip Somodevilla/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt því ranglega fram í ávarpi sínu í Hvíta húsinu í kvöld að hann stæði uppi sem sigurvegari forsetakosninganna ef aðeins „lögleg“ atkvæði væru talin. Þá varpaði hann enn og aftur fram ásökunum um kosningasvindl og sakaði demókrata um að reyna að „stela kosningunum.“

„Ef löglegu atkvæðin eru talin vinn ég auðveldlega, ef ólöglegu atkvæðin eru talin geta þau [demókratar] auðveldlega stolið kosningunum af okkur,“ sagði Trump.

„Þau eru að reyna að stela kosningunum. Þau eru að reyna falsa úrslit kosninganna. Við megum ekki leyfa þeim það,“ sagði Trump einnig í ávarpinu.

Trump hefur ítrekað haldið því fram eða ýjað að því í dag og síðustu daga að verið sé að fremja kosningasvik í ríkjum sem Joe Biden, mótframbjóðandi hans, hefur unnið – eða gæti unnið á lokametrunum. Trump og framboði hans hefur þó ekki tekist að færa sönnur á ásakanir sínar, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir fjölmiðla þess efnis.

Þá nefndi Trump það í ávarpi sínu að hann hefði unnið stóra sigra í ríkjum á borð við Flórída og sagði einnig að ekkert hefði verið að marka skoðanakannanir fyrir kosningarnar. Þær hefðu jafnframt verið til þess fallnar að „bæla niður“ væntanlegan árangur repúblikana.

Trump sagði það jafnframt afar grunsamlegt hvað póstatkvæði, sem á mörgum stöðum eru talin síðast og eru til að mynda nú að hafa mikil áhrif á úrslit kosninganna í Pennsylvaníu, væru „einhliða“. 

Ítrekað hefur komið fram að demókratar eru mun líklegri til að greiða póstatkvæði. Hingað til hefur Biden til að mynda hlotið 75 prósent allra póstatkvæða. Trump lagði einmitt áherslu á það í kosningabaráttu sinni að auðvelt væri að svindla með póstatkvæðum, sem er ekki rétt, og réð stuðningsmönnum sínum frá því að greiða atkvæði með þeim hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×