Erlent

Allir í skimun í Slóvakíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Rúmlega 40 þúsund heilbrigðisstarfsmenn, með aðstoða hersins, lögreglu, embættismanna og sjálfboðaliða, koma að átakinu og voru um fimm þúsund skimunarstöðvar opnaðar þess vegna.
Rúmlega 40 þúsund heilbrigðisstarfsmenn, með aðstoða hersins, lögreglu, embættismanna og sjálfboðaliða, koma að átakinu og voru um fimm þúsund skimunarstöðvar opnaðar þess vegna. EPA/JAKUB GAVLAK

Nærri því helmingur slóvakísku þjóðarinnar fór í skimun fyrir Covid-19 í gær. Alls fóru um 2,6 milljónir manna í skimun og á hinn helmingurinn að fara í skimun í dag. Um stærðarinnar átak er að ræða og er markmiðið að skima alla Slóvaka sem eru eldri en tíu ára.

Rúmlega 40 þúsund heilbrigðisstarfsmenn, með aðstoða hersins, lögreglu, embættismanna og sjálfboðaliða, koma að átakinu og voru um fimm þúsund skimunarstöðvar opnaðar þess vegna.

Í frétt Reuters segir að ráðamenn víða um heim fylgist með átakinu og því hvernig það muni virka.

Skimunin er íbúum að kostnaðarlaus en þeir sem neita að taka þátt verða skikkaðir í sóttkví og meinað að mæta til vinnu um tíma. Annars þurfa viðkomandi að greiða háa sekt. Samkvæmt Guardian getur fólk varið að fara í einangrun heima hjá sér eða á sérstökum stöðum sem ríkið gerir út.

Það tekur einungis 30 mínútur að fá niðurstöðu úr skimuninni.

Þeir sem hafa ekki smitast fá sérstakt vottorð þar að lútandi en lögregluþjónar munu reyna að ganga úr skugga um að fólk reyni ekki að komast hjá skimuninni.

Igor Matovic, forsætisráðherra Slóvakíu, hefur beðist afsökunar á þeim þrýstingi sem yfirvöld séu að beita gagnvart þjóðinni. Það sé þó nauðsynlegt.

„Frelsinu fylgir ábyrgð gagnvart þeim sem eru hvað viðkvæmastir meðal okkar,“ hefur Reuters eftir Matvic og vísaði hann til fólks með undirliggjandi veikindi og eldra fólk.

Nokkrar þúsundir Slóvaka smituðust í fyrstu bylgju faraldurs Nýju kórónuveirunnar þar í landi í vor. Gripið var til umfangsmikilla takmarkana og gekk það mjög vel. Undanfarnar vikur hefur smituðum þó fjölgað mjög hratt. Nú á miðvikudaginn greindust 2.785 smitaðir, en mánuði áður greindist 231.


Tengdar fréttir

Ekkert innanlandssmit í Ástralíu í fyrsta sinn í fimm mánuði

Ekkert innanlandssmit Covid-19 greindist í Ástralíu í gær og er það í fyrsta sinn í nærri því fimm mánuði sem það gerist. Í Viktoríu, fylki þar sem rúmlega 90 allra dauðsfalla vegna veirunnar hafa orðið, hefur enginn dáið né greinst smitaður í tvo daga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×