Erlent

Trump treystir á kosningafundi í aðdraganda kosninga

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti, vonast til þess að kosningafundirnir muni hjálpa til við að koma skilaboðum hans til kjósenda.
Donald Trump, forseti, vonast til þess að kosningafundirnir muni hjálpa til við að koma skilaboðum hans til kjósenda. AP/Keith Srakocic

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun halda fimm kosningafundi með stuðningsmönnum sínum í fimm ríkjum í dag. Hann stefnir svo á sjö fundi á morgun, síðasta fulla degi kosningabaráttunnar, og stefnir hann einnig á að halda fundi á þriðjudaginn, kjördag.

Forsetinn er að mælast með minna fylgi en Joe Biden, mótframbjóðandi hans, og á minna fé til að verja til auglýsinga. Vonast hann til þess að kosningafundirnir muni hjálpa til við að koma skilaboðum hans til kjósenda.

Eins og bent er á í frétt AP fréttaveitunnar eru þó uppi efasemdir um að kosningafundir Trump auki fylgi hans mikið ef eitthvað. Þeir sem mæta á kosningafundi hans eru líklegast að fara að kjósa hann hvort sem er.

Trump hefur á undanförnum dögum reynt að teikna upp dökka mynd af Biden og jafnvel gefið í skyn að bóluefni gegn Covid-19 muni ekki líta dagsins ljós ef hann sjálfur verði ekki kosinn aftur.

„Þessar kosningar snúast um val á milli Bidenkreppu eða Trumphagvaxtar. Þetta er val á milli Biden útgöngubanns eða öruggs bóluefnis sem endar faraldurinn,“ sagði Trump við stuðningsmenn sína í gær.

„Undir Biden verður engin skóli, engin brúðkaup, engar útskriftir. Engin þakkagjörðarhátíð, engin jól, engin fjórði júlí. Ekkert ekkert,“ sagði hann einnig. „Biden mun festa ykkur öll í endalausri martröð ferðatakmarkana,“ sagði Trump síðar.

Í gær varð ljóst að rúmlega 91 milljón Bandaríkjamanna hafa þegar greitt utankjörfundaratkvæði og þykir það til marks um að kjörsókn verði gífurlega há. Í kosningunum 2016 greiddu 139 milljónir atkvæði og nú er útlit fyrir að töluverður meirihluti kjósenda sé þegar búinn að kjósa.

Samkvæmt Washington Post voru fleiri kjósendur Biden og Demókrata sem greiddu atkvæði í gegnum póst en kjósendur Repúblikana hafa verið að gefa þar í og þá sérstaklega í mikilvægum barátturíkjum eins og Flórída, Norður-Karólínu og Georgíu.

Í greiningu AP fréttaveitunnar segir að leið Bidens að þeim 270 kjörmönnum sem þurfi til að vinna kosningarnar sé greiðari en leið Trumps, miðað við kannanir. Hans auðveldasta leið væri að vinna öll ríkin sem Hillary Clinton vann árið 2016 og Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin þar að auki. Demókratar höfðu reglulega unnið þau ríki í áratugi, áður en Trump vann þar 2016.

Til marks um mikilvægi þessara ríkja hefur framboð Trump varið nærri því þriðjungi alls þess fjármagns sem hefur verið varið í auglýsingar í þeim þremur ríkjum.


Tengdar fréttir

Helstu málefni Bandaríkjanna og hvar Trump og Biden standa

Bandaríkjamenn sem ekki hafa þegar greitt atkvæði, ganga margir hverjir til kosninga á þriðjudaginn. Helstu kostirnir í forsetakosningunum að þessu sinni eru þeir Donald Trump, núverandi forseti, og Joe Biden, fyrrverandi varaforseti og öldungadeildarþingmaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×